136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[11:27]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að segja að ég er eiginlega orðlaus vegna þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram. Hvað er hér á ferðinni? Miðað við það hvernig fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna tala hér þá er ríkisstjórnin óstarfhæf. Hún er algerlega óstarfhæf. Hér kjósa menn að fara upp í pontu sitt á hvað, frá hvorum ríkisstjórnarflokknum um sig og berja hver annan með Seðlabankanum. Og þetta er fyrsta innslagið í því stórmerkilega máli sem við erum að fjalla um, lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Hvað er hér á ferðinni? Ég missi algerlega áhugann á að fara í andsvar við hæstv. forsætisráðherra þegar ég horfi upp á þetta. Þetta er óstarfhæf ríkisstjórn, virðulegi forseti. Fulltrúi Samfylkingarinnar segir að það sé allt í steik í Seðlabankanum. (Gripið fram í: Varstu ekki á miðstjórnarfundi í Framsóknarflokknum?) Forsætisráðherra, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir að það sé allt í himnalagi í Seðlabankanum? (Gripið fram í: Starfandi forsætisráðherra ...) Það er ekki hægt að bjóða Alþingi upp á þennan málflutning. Það er ekki hægt að bjóða þjóðinni upp á þetta. Það er ekki hægt að bjóða alþjóðasamfélaginu upp á þetta. Það er fylgst með Íslandi. Hér er verið að ræða alvarlegt mál. Ríkisstjórnarflokkarnir geta ekki hagað sér svona. Þetta gengur ekki upp, virðulegi forseti.

Við sitjum hér og horfum upp á ríkisstjórnarflokkana berja hvor annan í beinni útsendingu í alvarlegu máli. Ég er algerlega orðlaus. Og ég verð að viðurkenna að ég er farin að vorkenna hæstv. forsætisráðherra að þurfa að sitja undir þessu. Ég vorkenni forsætisráðherra sem er að reyna að standa vaktina og fyrsta innslagið er frá samstarfsflokknum sem ræðst að forsætisráðherranum.

Virðulegi forseti. Ég ætla að sleppa því að koma upp í síðara skiptið, mér finnst þetta svo mikið hneyksli að ég hef enga lyst á því.