136. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2008.

skattlagning kolvetnisvinnslu.

208. mál
[16:47]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er enn jafnundrandi og ég var áðan á því að hv. þingmenn Álfheiður Ingadóttir og Kolbrún Halldórsdóttir skuli tala hér eins og við ljúkum nú á eftir eðlilegri þinglegri meðferð á málinu um kolvetnisvinnsluna, sem tengist þessu máli, vegna þess að svo er alls ekki. Hún er rétt að hefjast og mun hefjast í fyrramálið með samræðum við Samband íslenskra sveitarfélaga, sem hefur gert við þetta talsverðar athugasemdir. Í kjölfarið munum við ræða við ráðuneytið og á morgun fáum við einnig inn umsagnir og köllum til gesti í framhaldi af því. Hér er málið því í efnislegri vinnslu og þess vegna stend ég eiginlega í forundran að menn skuli tala með þeim hætti sem hér er gert vegna þess að svo er alls ekki.

Hv. þingmaður sagði líka að hún teldi það eðlilegt vegna umfangs málsins að hv. efnahags- og skattanefnd, hv. umhverfisnefnd og hv. iðnaðarnefnd funduðu saman um málið í heild. Það þykir mér ekkert verri tillaga en margar aðrar og aldrei að vita nema akkúrat það verði gert. En málið sem við ræðum hér var að koma á dagskrá í dag þannig að ekki hefur verið uppi á borðinu fram að þessu í þinglegri meðferð að efnahags- og skattanefnd kæmi að málinu.

Nú eru hins vegar þessi tvö mál bæði komin inn og þá tel ég að þetta komi vel til greina.