136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

kjararáð.

210. mál
[20:44]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Hér er til umræðu frumvarp til launalækkunar hjá þingmönnum, ráðherrum og öðrum opinberum starfsmönnum þó svo að kannski megi draga í efa að þingmenn og ráðherrar séu opinberir starfsmenn í sömu merkingu og aðrir sem ráðnir eru til starfa hjá ríkinu, jafnvel æviráðnir. Við erum þó bara ráðnir eitt kjörtímabil í einu og auðvitað er það með öðrum hætti en hjá öðrum starfsmönnum.

En það var að skilja í efnahags- og skattanefnd að allir væru sammála um að það þyrfti að lækka laun þingmanna og ráðherra og sýna gott fordæmi. En spurningin var hvort frumvarpið ætti einungis að fjalla um laun þingmanna og ráðherra eða hvort þar ætti að fjalla um alla sem tilheyra eða eru undir kjararáði með laun sín settir.

Auðvitað má taka undir með Ögmundi Jónassyni að kannski væri eðlilegast að prestar sem eru kannski lægst launaðir í þeim hópi sem er undir kjararáði væru teknir út og yrðu með öðrum opinberum starfsmönnum. Það væri gaman að því að þá væri hv. Ögmundur Jónasson orðinn æðsti prestur. En það þyrfti ekki að verða verra fyrir prestastéttina þannig lagað séð.

En það eru víða ofurlaun í samfélaginu enn þá þrátt fyrir að við horfum upp á hrun bankanna og að við höfum aldrei séð kreppu neitt líka þeirri sem blasir við núna og það er sorglegt að vita til þess að enn þá skuli einhverjir vera með ofurlaun. Það eru ofurlaun að vera með tvöföld laun forsætisráðherra sem eru 1.100 þús. kr. Það eru líka ofurlaun í orkufyrirtækjunum, hjá Landsvirkjun og öðrum orkufyrirtækjum í landinu eru ofurlaun. Einnig hjá eftirlitsstofnunum sem eiga að hafa eftirlit með öðrum stofnunum, hjá eftirlitsnefndum sem hafa skipað skilanefndir yfir nýju bönkunum og gömlu bönkunum. Forustumennirnir og hæst launuðu mennirnir í samfélagi í dag eru í þeim fyrirtækjum.

Þess vegna finnst mér að þegar nýráðinn bankastjóri fyrir einum og hálfum mánuði var með 1.750 þús. kr. í laun og þeir menn sem eru í því hlutverki að skipa bankastjóra láta það viðgangast þá séum við bara að halda áfram á sömu braut og við vorum. Við lærum ekkert af kreppunni eða þeim mistökum sem hafa verið gerð í þjóðfélaginu. Það er auðvitað sorglegt.

Þingfararkaup upp á 560 þús. kr. eru ágætislaun og það er ekkert undan þeim að kvarta og þó að þau lækkuðu um 10% þá eru það samt ágætislaun miðað við laun annarra þjóðfélagsþegna. (BJJ: Ekki miðað við skipstjóra.) En, fyrst að hv. þm. Birkir Jón Jónsson minntist á skipstjóra þá ættu íslensk stjórnvöld og kannski aðrir að taka það launafyrirkomulag sem er til sjós til fyrirmyndar, þ.e. að æðsti maður hafi aldrei meira en tvöföld eða þreföld laun hásetans, þess lægst launaða. Þetta eru nú þau skipti sem við höfum búið við í gegnum Íslandssöguna nánast, að skipstjóri væri á tvöföldum til þreföldum launum. Það færi kannski betur að í þessum opinberu stofnunum bæði bönkum og öðrum eftirlitsstofnunum, Orkustofnun, fyrirtækjum og öðru að yfirmennirnir væru bara með tvöföld eða þreföld lægstu launin. Ég held að þeir kæmust alveg af með það.

En við erum ekki bara að tala um þau launamál sem eru undir kjararáði. Við erum líka að tala um að breyta eftirlaunum alþingismanna. Það vill nú svo til að ég sat á þingi árið 2003 þegar frumvarpið um eftirlaun alþingismanna, ráðherra, forseta og efstu ráðamanna varð að lögum og ég var fyrsti maður í ræðustól á eftir flutningsmanninum, Halldóri Blöndal, sem þá talaði fyrir málinu um eftirlaunafrumvarp alþingismanna. Og ég varaði við því að gera þetta og greiddi atkvæði á móti því að það eftirlaunakerfi sem alþingismenn og ráðherrar búa við í dag yrði tekið upp.

Það er töluverður munur á því hvort menn eru þingmenn eða ráðherrar hvað varðar eftirlaun. Greiðslurnar voru hækkaðar um 25%, inngreiðslur inn í ríkissjóðinn hjá þingmönnum. Menn þurftu að sitja í tólf og hálft ár á þingi eða meira til þess að ná því, eins og gömlu lögin voru. En aftur á móti nutu ráðherrar mjög góðs af þessu. Bæði gátu þeir farið á full eftirlaun 55 ára gamlir ef þeir höfðu verið ráðherrar og síðan ef þeir stunduðu ritstörf eða eitthvað þess háttar þá urðu þeir ekki fyrir skerðingum út af þeim tekjum sem þeir höfðu fyrir það. Það er því partur af því sem við erum að ganga í gegnum núna, það er að ræða líka eftirlaunafrumvarp alþingismanna, ráðherra og æðstu embættismanna þjóðarinnar.

Eins og ég sagði áðan þá er spurning hvort við tökum alla undir þennan lið í frumvarpinu, alla sem heyra undir kjararáð, eða bara alþingismenn og ráðherra. Auðvitað mundu hinir fylgja á eftir þegar fram líða stundir, kannski eftir þrjá, fjóra til fimm mánuði, í síðasta lagi 1. apríl í vor þegar vænta má að kjarasamningar verði lausir hjá einhverjum opinberum starfsmönnum.

Það þarf auðvitað að stefna að því að jafna laun fólks í landinu. Þetta ofurlaunabrjálæði sem við höfum búið við síðustu ár er náttúrlega bara — og við hér í þinginu erum skyldug að beita okkur fyrir því af fremsta megni að reyna að jafna launakjör í landinu. Lægst launaða fólkið er með um það bil 150 þús. kr. á mánuði í dag og á þá eftir að borga skatta af þeirri upphæð. (Gripið fram í.) Síðan er það hæst launaða fólkið í landinu sem var með margar milljónir á mánuði, bankastjórar í sumum bönkunum voru með allt upp í 200-föld árslaun t.d. gjaldkera eða þeirra starfsmanna bankans sem voru lægst launaðir. Það er auðvitað alls ekki hægt að sætta sig við svona bull og svona rugl. Sömu menn voru líka með alls konar bónusa og máttu kaupa hlutabréf og annað í fastri gengisskráningu, föstu gengi og fastri vísitölu og annað sem var mjög óeðlilegt.

Við eigum að læra af þessu og reyna að búa til meira jafnræði. Ég held að það sé engin spurning að það verður stuðningur við þetta frumvarp kannski með einhverjum breytingum. En hættum þessu brjálæði sem hefur verið í gangi og reynum að snúa okkur að því að búa til jafnara launakerfi í landinu. Við erum að fara að byggja upp nýtt Ísland og við þurfum að gera það frá grunni. Við þurfum að gera það með þeim hætti að það sé snúið ofan af þeirri vitleysu sem við erum búin að vera í og ég trúi því og treysti að Alþingi, eftir þau ósköp sem yfir okkur hafa gengið, stuðli að því að búa til réttlátara og betra samfélag til framtíðar litið.