136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

afhendingaröryggi raforku og virkjun vatnsfalla á Vestfjörðum.

283. mál
[15:37]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég hef þegar lagt fram mjög ítarlegt yfirlit á Alþingi Íslendinga um það með hvaða hætti ég hef beitt mér fyrir því að hraða því að afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum verði aukið. Það gerði ég í svari við þremur fyrirspurnum sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson fleytti hér fram á síðasta ári.

Til þess að gefa hv. þingmanni yfirlit yfir það sem ég hef beitt mér fyrir og stofnanir ríkisins þá skipti ég þeim aðgerðum í tvennt. Annars vegar það sem ég gæti kallað aðgerðir til skamms tíma og hins vegar aðgerðir til lengri tíma. Fyrri aðgerðirnar eru þríþættar. Landsnet hefur á síðustu mánuðum unnið að endurnýjun á varnarbúnaði flutningskerfisins á Vestfjörðum sem hafa þegar að mati Landsnets skilað góðum árangri. Settur var upp nýr varnarbúnaður á allar 66 kílóvolta háspennulínur í desember. Hann mælir jafnframt fjarlægð að bilunarstað. Þetta tryggir miklu afmarkaðri útleysingar lína, þ.e. straumleysi, en áður og styttir bilanaleit og það gerir mögulegt líka að hringtengja sambandið Breiðavík/Bolungarvík/Ísafjörður sem hefur ekki verið gert um margra ára skeið, því er lokið. Til að gera þetta mögulegt voru settar upp 66 kílóvolta straum- og spennuspennar í aðveitustöðinni við Bolungarvík og það hefur þegar reynt á þetta og endurbæturnar reyndust vel.

Í öðru lagi þá hefur Landsnet líka sett upp svokallaðar undirtíðnivarnir. Það eru varnir sem leysa út álag vegna afmarkaðs straumleysis til að koma á jafnvægi á milli framleiðslu og notkunar og þær bregðast við þegar vesturlínu leysir út en í kjölfarið verður þá aflskortur á svæðinu. Markmiðið er sem sagt að leysa út álag svo komast megi hjá því að Mjólkárvirkjun leysi út vegna yfirálags. Mér er kunnugt um að á þetta hefur reynt í tvígang með góðum árangri eftir að þessi búnaður var settur upp. Þessu til viðbótar er svo ráðgert að kaupa varnir sem á að setja upp til þess að leysa út afgangsorku í truflanatilvikum. Þegar þetta er komið allt saman ættu virkjanir í fjórðungnum að geta staðið undir forgangsorkunotkun. Sömuleiðis hefur líka verið tekin nýlega ákvörðun um að ræsa jafnan dísilvélar þegar ofsaveður eru í uppsiglingu þannig að minnka megi líkur á verulegu straumleysi í kjölfar útleysinga á vesturlínu.

Í þriðja lagi var vesturlína yfirfarin á síðastliðnu ári með tilliti til lagfæringa sem gætu aukið styrk hennar og minnkað líkur á útleysingum og straumleysi. Það hafa nú þegar verið gerðar lagfæringar á nokkrum stöðum og frekari rannsóknir á línunni eru í undirbúningi. Allar þessar aðgerðir eru á tímasetningum sem ég hef kynnt þinginu áður.

Hinar aðgerðirnar sem taka síðan lengri tíma eru í fyrsta lagi að Landsnet hefur tekið ákvörðun um að rífa 66 kílóvolta Bolungarvíkurlínu 2 og leggja hana í streng. Fyrsti áfanginn, kaup á jarðstreng, fer í útboð að ég hygg eftir tvær vikur og sú vinna tengist vitaskuld jarðgangagerðinni sem unnin er um þessar mundir undir sterkri forustu hæstv. samgönguráðherra. Síðari áfanginn verður svo boðinn út á næsta ári þegar endanleg lega nýrrar spennistöðvar á Ísafirði liggur fyrir. Að sjálfsögðu mun Landsnet nota tækifærið og leggja jarðstreng í önnur göng sem kunna að verða gerð í framtíðinni og hv. þingmaður hefur m.a. beitt sér fyrir á umliðnum árum. Í öðru lagi verður byggð ný spennistöð á Ísafirði þegar niðurstaða liggur fyrir um staðsetningu hennar. Það er unnið að því í samvinnu orkubúsins og bæjarstjórnar. Í þriðja lagi vinnur Landsnet núna að frekari greiningum á kostum sem eru líklegir til að tryggja Vestfirðingum sambærilegt rekstraröryggi og öðrum notendum. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni og öðrum þingmönnum Vestfjarða um að það er ekki við það búandi að Vestfirðir séu með þriðja flokks kerfi miðað við aðra landsfjórðunga og ég hef sem iðnaðarráðherra beitt mér sterklega fyrir því að breyta því.

Þessir kostir eru ólíkir, t.d. er verið að skoða hverjir komi hagkvæmast út, Hvalárvirkjun er einn þessara kosta, ný lína vestur mundi líka leysa vanda Vesturlands. Svo eru líka aðrir kostir til skoðunar. Það er væntanleg, vonandi á allra næstu dögum, skýrsla um þessa greiningu. Hún verður send þingmönnum kjördæmisins og kynnt um leið og hún er til og stefnumarkandi ákvarðanir af minni hálfu munu þá fylgja í kjölfarið.

Að því er varðar áform af hálfu ráðuneytisins um virkjun vatnsfalla á Vestfjörðum þá hef ég engin áform um það frekar en um virkjanir einstakra vatnsfalla í öðrum landshlutum. Stofnanir á mínum vega hafa unnið skýrslur um Skúfnavatnavirkjun og líka Hvalárvirkjun og sömuleiðis minni ég á gamla skýrslu um Glámu.

Loks er spurt hvenær ég hyggst gefa út rannsóknarleyfi vegna virkjunar Hvalár. Ég hyggst ekki gefa það út, ég tel að það sé óþarft. Það liggur fyrir samningur allra eigenda vatnsréttinda (Forseti hringir.) vegna rannsókna og virkjunar við Vesturverk og ég tel þess vegna samkvæmt laganna hljóðan að ekki þurfi að gefa út rannsóknarleyfi og menn geti undið sér í þetta verk. (Forseti hringir.) Ég óska þeim alls góðs í því vegna þess að ég styð virkjun Hvalár.