136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

afhendingaröryggi raforku og virkjun vatnsfalla á Vestfjörðum.

283. mál
[15:42]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég vil taka undir hversu afhendingaröryggi rafmagns á Vestfjörðum og reyndar um vestanvert landið hefur verið slakt og hvernig þessir landshlutar hafa í rauninni setið á hakanum í þessum efnum. Lögð hefur verið megináhersla á lagningu stórra flutningsmannvirkja, flest tengd stóriðju, en landsbyggðin hefur verið látin sitja á hakanum í þeim efnum.

Þrífösun rafmagns í sveitum gengur allt of hægt og það að tryggja rafmagnsöryggi, hvort sem er í Dölum, á Snæfellsnesi, norður um Vestfirði eins og hér hefur verið rakið, um Norðvesturland, um landið allt. Einmitt um hinar dreifðu byggðir sem við nú horfum til að geti og eigi mikla möguleika á að auka verðmætasköpun sína. Að auka og tryggja atvinnuöryggi út um land allt er það sem við eigum að hlúa að og þess vegna þarf forgangsröðunin núna að vera sú að tryggja afhendingaröryggi (Forseti hringir.) rafmagns út um hinar dreifðu byggðir og eins að koma á þrífösun rafmagns. Þetta eiga að vera (Forseti hringir.) forgangsatriði nú.