136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[17:17]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel mig í öllum meginatriðum hafa svarað þeim sjónarmiðum sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur í þessu efni. Ég tel að þau réttindi og skyldur sem fylgja aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins séu gagnsæjar og ég tel að með því að þingmenn og ráðherrar og aðrir sem um er fjallað í lagafrumvarpinu fari inn í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, þ.e. A-deildina, fylgi gagnsæ réttindi og gagnsæjar skyldur þeirri aðild.

Varðandi breytingartillögu hv. þm. get ég bara endurtekið það sem ég sagði áðan að ég er ekki sammála henni. Ég mun ekki styðja hana vegna þess að ég er ekki sammála því að hún muni gera það að verkum að þingmenn og ráðherrar sitji við sama borð og almenningur í landinu. Þvert á móti væri með samþykkt þeirrar tillögu verið að færa þeim sérstök réttindi umfram það sem almenningur hefur, nefnilega að geta valið úr allri lífeyrissjóðaflórunni, hvert þeir vilja beina lífeyrisiðgjöldum sínum (Gripið fram í.) og taka réttindi sín. Þessi viðhorf þekkir hv. þm. Pétur H. Blöndal og honum er kunnugt um þau sjónarmið sem upp hafa komið í þessu efni, m.a. frá aðilum vinnumarkaðarinsj. Fulltrúi Samtaka atvinnulífsins var mjög afdráttarlaus í viðhorfi sínu á fundi efnahags- og skattanefndar þar sem hann lagðist algerlega og alfarið gegn því að þessi leið yrði farin. Ég reikna með að hv. þm. Pétur H. Blöndal þekki þessi viðhorf og án þess að ég viti það, þá er ég ekki sannfærður um að viðhorf hv. þingmanns eigi hljómgrunn, ekki einu sinni í hans eigin þingflokki (Forseti hringir.) því það var ekki þetta sjónarmið sem kom fram frá öðrum fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í efnahags- og skattanefnd.