136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

fjármálafyrirtæki.

409. mál
[13:44]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum, 409. mál á þingskjali 693.

Með frumvarpinu eru lagðar til viðamiklar breytingar á XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki, en kaflinn fjallar um endurskipulagningu fjárhags fjármálafyrirtækja, slit þeirra og samruna við önnur fjármálafyrirtæki.

Þessi ákvæði laga um fjármálafyrirtæki voru samin fyrir þau áföll sem urðu í íslensku fjármálalífi haustið 2008 og byggjast að mestu á reglum tilskipunar 2001/24/EB frá 4. apríl 2001, um endurskipulagningu og slit lánastofnana. Breytingar þær sem lagðar eru til í frumvarpinu eru einnig í samræmi við framangreinda tilskipun.

Ákvæði XII. kafla laga nr. 161/2002 miðuðu nokkurn veginn við eðlilegt ástand í fjármálakerfi landsins, þ.e. einkum að eitt fjármálafyrirtæki kynni að lenda í fjárhagslegum vandræðum, og mæltu fyrir um hvernig úr því skyldi leyst. Nú er ljóst að þau eru ekki fullnægjandi við þær aðstæður sem við eiga hér á landi. Sá tími sem var til ráðstöfunar við samningu frumvarps þess sem varð að lögum nr. 125/2008 var mjög skammur og mikil óvissa ríkjandi. Með lögunum voru gerðar ýmsar breytingar á lögum nr. 161/2002, einkum XII. kafla þeirra. Má segja að með þeim hafi verið brugðist við neyðarástandi sem m.a. fólst í falli bankanna þriggja. Nauðsynlegt reyndist að gera frekari breytingar á lögum nr. 161/2002, einkum XII. kafla þeirra og var það gert með lögum nr. 129/2008, sem tóku gildi 14. nóvember 2008. Með þeim lögum var einnig verið að bregðast við neyðarástandi, þótt ekki væri það eins óvænt og það sem varð tilefni setningar laga nr. 125/2008. Ákvæðum laga nr. 125/2008 og nr. 129/2008 var ekki ætlað að gilda til frambúðar, enda sett til þess að bregðast við mjög óvenjulegu ástandi sem enginn gat séð fyrir. Nokkur gagnrýni kom fram á ákvæði sem lögfest var með lögum nr. 129/2008, um bann við málssóknum gegn fjármálafyrirtækjum sem fengið hefðu leyfi til greiðslustöðvunar, og beindi viðskiptanefnd Alþingis því m.a. til ráðuneytisins að ákvæðið yrði endurskoðað. Þá kom sú afstaða fram hjá viðskiptanefnd þegar fjallað var um frumvarp það sem varð að lögum nr. 129/2008 að mikilvægt væri að endurskoða heildstætt ákvæði laga um slit fjármálafyrirtækja. Með frumvarpi þessu er lagt til að ákvæði um bann við málssóknum gegn fjármálafyrirtækjum í greiðslustöðvun verði fellt brott.

Nú þegar liðnir eru nokkrir mánuðir frá því að framangreind lög voru sett hefur gefist tóm til að skipuleggja hvernig framvindan verði að því er lýtur að fjárhagslegri endurskipulagningu og eftir atvikum slitum á þeim þremur viðskiptabönkum sem Fjármálaeftirlitið stýrir. Hefur verið unnið að gerð tillagna um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki sem fælu í sér heildarendurskoðun á XII. kafla þeirra og jafnframt viðbrögð við því ástandi sem skapast hefur hér á landi. Við þá vinnu hefur verið lögð sérstök áhersla á að gætt verði jafnræðis allra kröfuhafa og að reglur um endurskipulagningu og slit væru í samræmi við hliðstæðar reglur sem gilda um önnur fyrirtæki og einstaklinga eftir því sem við getur átt. Sérstök áhersla hefur verið lögð á að lánardrottnar þeirra fjármálafyrirtækja sem í hlut eiga hafi tök á að gæta hagsmuna sinna.

Helstu atriði frumvarpsins eru:

Í fyrsta lagi að lagt er til að settar verði nýjar reglur um slitameðferð fjármálafyrirtækja og gera reglur frumvarpsins ráð fyrir að fjármálafyrirtækið sjálft hafi frumkvæði að slíkri slitameðferð. Í bráðabirgðaákvæði er þó lagt til að Fjármálaeftirlitið geti einnig haft frumkvæði að því að taka yfir ráð fjármálafyrirtækis.

Í öðru lagi er lagt til að um slitameðferðina gildi um margt sömu reglur og gilda um gjaldþrotaskipti.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að skipuð verð slitastjórn sem hafi um flest sömu heimildir og skiptastjóri þrotabús. Þar gildir þó sú aðalregla að slitastjórn skal hafa að markmiði að fá sem mest fyrir eignir fjármálafyrirtækis, þar á meðal með því að bíða eftir þörfum efndatíma á útistandandi kröfum þess fremur en að koma þeim fyrr í verð.

Í fjórða lagi er lagt til að gefin verði út innköllun þar sem kröfuhöfum gefst kostur á að lýsa kröfum sínum til slitastjórnar og að afstaða verði tekin til þeirra, eftir atvikum með dómsúrlausn. Gerð er tillaga um að kröfuhafar geti, með svipuðum hætti og tíðkast við gjaldþrotaskipti, gætt hagsmuna sinna við slitameðferð og átt þess kost að bera ágreining um réttmæti krafna sinna og um ákvarðanir og ráðstafanir slitastjórnar undir dómstóla.

Þá eru gerðar tillögur um að slitameðferð geti lokið með þeim hætti að fjármálafyrirtæki eigi þess kost, með samþykki Fjármálaeftirlitsins, að hefja starfsemi á ný eða þá að eigendum (hluthöfum eða stofnfjáreigendum) verði greiddir hlutir þeirra í fyrirtækinu að greiddum lýstum kröfum á hendur því. Þá er einnig gert ráð fyrir því að slitastjórn geti leitað nauðasamnings við kröfuhafa og efnt hann og í framhaldi af því geti fjármálafyrirtæki annaðhvort hafið starfsemi að nýju, með samþykki Fjármálaeftirlitsins, eða eignir þess verði greiddar hluthöfum eða stofnfjáreigendum.

Loks er gert ráð fyrir að við tilteknar aðstæður sé slitastjórn skylt að krefjast gjaldþrotaskipta á búi fjármálafyrirtækis.

Í bráðabirgðaákvæðum með frumvarpinu er mælt fyrir um hvernig fara skuli með fjármálafyrirtæki sem njóta greiðslustöðvunar við gildistöku laganna.

Lagt er til að heimild þessara fyrirtækja til greiðslustöðvunar haldist þrátt fyrir gildistöku laganna og að framlengja megi greiðslustöðvun í allt að 24 mánuði frá því þinghaldi þegar heimild til greiðslustöðvunar var fyrst veitt.

Þá er lagt til að þau fjármálafyrirtæki sem þegar hafa fengið heimild til greiðslustöðvunar hafi heimild til að beita nánar tilgreindum ákvæðum sem gilda um fyrirtæki í slitameðferð, t.d. reglum um meðferð krafna og ráðstöfun hagsmuna fjármálafyrirtækis. Þó er gert ráð fyrir að slitameðferðin verði áfram kennd við heimild til greiðslustöðvunar svo lengi sem heimildin stendur. Þegar heimild til greiðslustöðvunar fellur niður telst fjármálafyrirtæki sjálfkrafa og án sérstaks dómsúrskurðar vera í slitameðferð

Í þriðja lagi er lagt til að skilanefnd fjármálafyrirtækis sem fengið hefur heimild til greiðslustöðvunar skuli halda áfram störfum og nota heitið skilanefnd. Skal skilanefndin gegna því hlutverki sem slitastjórn er ætlað í nánar tilgreindum ákvæðum frumvarpsins, en gert er ráð fyrir að öðrum verkefnum sinni slitastjórn sem skipuð er af héraðsdómara að beiðni skilanefndar. Aðstoðarmaður við greiðslustöðvun tekur sjálfkrafa sæti í slíkri skilastjórn. Er í því sambandi mikilvægt að skýrt sé hvaða verkefnum skilanefnd á að sinna og hvaða verkefnum slitastjórn á að sinna.

Jafnframt er gert ráð fyrir að kostnaður af störfum skilanefnda og slitastjórna greiðist af viðkomandi fjármálafyrirtæki.

Ég legg til, herra forseti, að máli þessu verði að umræðunni lokinni vísað til 2. umr. og hv. viðskiptanefndar.