136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

Ríkisendurskoðun.

416. mál
[14:18]
Horfa

Flm. (Gunnar Svavarsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir einu merkilegasta þingmannamáli sem talað hefur verið fyrir á þinginu þó að talað hafi verið fyrir þeim mörgum áður, virðulegi forseti, en það er örlítil breyting á lögum um Ríkisendurskoðun. Ég vonast til þess þar sem svo víðtækur stuðningur var við málið þegar það var lagt fram að þingið veiti því brautargengi á næstu dögum eða vikum.

Ástæðan er einfaldlega sú að í störfum flutningsmanna þessa frumvarps, sem eru fjárlaganefndarmenn auk mín, hv. þingmenn Ármann Kr. Ólafsson, Ásta Möller, Björgvin G. Sigurðsson, Björk Guðjónsdóttir, Ellert B. Schram, Guðbjartur Hannesson, Guðjón A. Kristjánsson, Illugi Gunnarsson, Jón Bjarnason, Kristján Þór Júlíusson, Magnús Stefánsson og Steinunn Valdís Óskarsdóttir, hefur verið nokkuð víðtæk umræða um E-hluta fyrirtæki í eigu ríkisins.

Ég hef einnig tekið eftir því, virðulegi forseti, að fjölmiðlamenn hafa líka haft gífurlegan áhuga á umræddum E-hluta fyrirtækjum. Ég hef oft kallað þetta ríkin í ríkinu. Eins og alþjóð veit eru E-hluta fyrirtækin gerð upp í ríkisreikningi hverju sinni en síðan er ekki fjallað um þau neitt að ráði í fjárlaganefnd heldur fjallar nefndin hverju sinni þegar kemur að fjárlögum eða fjáraukalögum um A, B, C og D-hluta.

Þegar fjárlaganefnd fer yfir hvort tveggja fjárlög og fjáraukalög eða framkvæmd fjárlaga þá hefur fjárlaganefnd og þar með talið Alþingi því að það er Alþingi sem tekur síðan við því sem fjárlaganefndin hefur fjallað um, ekki tækifæri til að skoða eða fylgjast með því starfi sem fer fram í tengslum við fjárreiður E-hluta fyrirtækjanna.

Til að setja málið í samhengi fyrir þá sem eru að hlusta eða skoða þessa ræðu síðar er rétt að geta þess að E-hluta fyrirtækin eru tæplega 30 og þeim hefur fjölgað núna undanfarið í tengslum við þær breytingar sem orðið hafa á fjármálamarkaði. Þau eru til að mynda Íslandsbanki hf., Nýi Kaupþing banki hf., NBI hf.; áður Nýi Landsbankinn, Keflavíkurflugvöllur ohf. Það eru félögin Austurhöfn-TR ehf. en ríkissjóður á 54% í því félagi, Eignarhlutir ehf., Eignarhaldsfélagið Farice ehf. en ríkissjóður á 38,97% í því félagi. — Nú vonast ég til þess, virðulegi forseti, að ég fari hér með réttar og dagréttar upplýsingar. Ef ekki biðst ég velvirðingar á því ef þær hafa breyst eitthvað á umliðnum dögum. — Það er félögin Flugfjarskipti ehf. en það félag er alfarið í eigu Flugstoða ehf. en ríkissjóður á allt hlutafé í Flugstoðum, Flugkerfi hf. en það félag er alfarið í eigu Flugstoða ehf. en ríkissjóður á eins og áður sagði allt hlutafé Flugstoða, Flugstoðir ohf., Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. sem hefur síðan væntanlega verið lögð inn í Keflavíkurflugvöll ohf. um áramótin, Íslandspóstur hf., Landskerfi bókasafna hf. en ríkissjóður á 52,2% í því félagi, Landsvirkjun en ríkissjóður á 99,9% í því félagi, Matís ohf., Neyðarlínan hf. en ríkissjóður á 73,7% í félaginu, Orkubú Vestfjarða hf., Rannsókna- og háskólanet Íslands hf., Rarik ohf., Ríkisútvarpið ohf., Tæknigarður hf. en ríkissjóður á 56,3% í því félagi, Vísindagarðar Háskóla Íslands ehf., Vísindagarðurinn ehf. en ríkissjóður á 87,2% í félaginu, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf., Öryggisfjarskipti ehf. en ríkissjóður á 75,7% í því félagi.

Ég tel að ég hafi nú sett málið í nokkurt samhengi að því leytinu til að hér liggur þá fyrir hvaða um hvaða félög er að ræða.

Ástæðan fyrir því, virðulegi forseti, að umræddir fjárlaganefndarmenn taka ákvörðun um það að koma fram með þessa lagabreytingu er sú að í tengslum við yfirferð á ríkisreikningi og fjárlögum hvers árs, í samráði við Ríkisendurskoðun og ráðuneyti og jafnvel einstaka aðila í stjórnsýslunni þykir rétt að Alþingi hafi aðgang að þeim gögnum sem Ríkisendurskoðun getur aflað um E-hluta fyrirtækin.

Við 10. gr. laganna — og ég er hér að tala um lög um Ríkisendurskoðun, nr. 86/1997 — mundi bætast ný málsgrein svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Ríkisendurskoðun er heimilt að veita fjárlaganefnd Alþingis aðgang að þeim gögnum sem hún aflar skv. 1. mgr. Nefndarmenn eru bundnir þagnarskyldu um þá vitneskju sem þeir fá í nefndinni ef ríkisendurskoðandi kveður svo á um.“

Þetta gefur Alþingi tækifæri til að fjalla um fjárreiður E-hluta fyrirtækja.

Í greinargerð með frumvarpinu frá hv. þingmönnum segir:

„Í frumvarpinu er lögð til breyting á lögum um Ríkisendurskoðun sem heimilar stofnuninni að veita fjárlaganefnd aðgang að þeim gögnum sem hún aflar skv. 1. mgr. 10. gr. laganna.

Mikilvægur þáttur í störfum fjárlaganefndar er eftirlit með framkvæmd fjárlaga og að því hefur verið unnið náið með Ríkisendurskoðun og fjárreiðu- og eignaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Forsenda þess að fjárlaganefnd geti rækt eftirlitshlutverk sitt er að hún hafi greiðan aðgang að upplýsingum og því er tilefni til að bæta aðgang þingsins að upplýsingakerfum ríkisins.“

Ég gríp hér inn í lestur minn á greinargerðinni að því leyti að það er nauðsynlegt, virðulegi forseti, að koma því til leiðar að fjárlaganefnd og fjárlaganefndarskrifstofan hafi mun greiðari aðgang að upplýsingakerfum ríkisins en nú er. Það er stundum þannig að tölulegar upplýsingar berast allt of hægt. Þetta á sérstaklega við þegar fjárlaganefndin er að fara yfir og endurrýna það sem gengið hefur á mánuðina á undan fjárlagavinnunni, sem tekur yfir mjög skamman tíma og er þá mikið álag á fjárlaganefndarmönnum og þinginu og nefndasviði.

Síðan segir áfram, virðulegi forseti:

„Í fjárreiðulögum eru ríkisstofnanir og fyrirtæki sem eru að hálfu eða meira í eigu ríkisins flokkaðar í hluta A, B, C, D og E og hefur aðgangur fjárlaganefndar að upplýsingum um þessa aðila ráðist af því hvaða flokki þau tilheyra. Í lögunum er m.a. gert ráð fyrir að hefðbundnar ríkisstofnanir tilheyri A-hluta en sameignar- og hlutafélög sem ríkið á að hálfu eða meira heyri til E-hluta.

Fram til þessa og á grundvelli 3. mgr. 25. gr. þingskapalaga hefur fjárlaganefnd átt þess kost að afla milliliðalaust upplýsinga frá forstöðumönnum ríkisstofnana en öðru máli gegnir um E-hluta fyrirtækin. Tregðu hefur gætt hjá stjórnendum þessara fyrirtækja eða, eftir atvikum, hlutaðeigandi ráðuneytum sem fara með eignarhlut ríkisins til að afhenda upplýsingar um starfsemina. Er því þá jafnan borið við að um sé að ræða viðkvæmar upplýsingar sem með hliðsjón af hagsmunum fyrirtækisins“ — ég ítreka að hér er um að ræða fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins — „hluthafa eða viðsemjenda þess sé ekki hægt að afhenda enda beri ekki skylda til með hliðsjón af ákvæðum upplýsingalaga, stjórnsýslulaga og fleiri laga.

Ekki verður því á móti mælt að gæta þurfi varúðar við meðferð ýmissa upplýsinga sem varða umrædd fyrirtæki eða aðila þeim tengda. Þá hagsmuni verður samt sem áður að vega á móti öðrum hagsmunum sem felast í því að fjárlaganefnd taki upplýstar ákvarðanir við rækslu eftirlitsstarfa sinna. Er farin sú leið í frumvarpinu að heimila Ríkisendurskoðun, sem starfar á vegum Alþingis, að veita fjárlaganefnd upplýsingar sem aflað er á grundvelli 10. gr. laga nr. 86/1997. Falla þar m.a. undir öll gögn sem máli skipta í tengslum við endurskoðun hlutafélags, sameignarfélags, viðskiptabanka eða sjóða sem ríkissjóður á helmingshlut í eða meira.

Tilgangur frumvarpsins er ekki að þrengja heimildir fjárlaganefndar til upplýsingaöflunar samkvæmt núgildandi lögum heldur að rýmka með það að leiðarljósi að nefndin eigi þess kost að afla upplýsinga um fyrirtæki sem falla undir E-hluta. Ríkisendurskoðun verði falið vald til að ákveða hvort veita eigi umbeðnar upplýsingar og í því tilviki sem fallist er á beiðni geti ríkisendurskoðandi mælst til þess að nefndarmenn verði bundnir þagnarskyldu um það sem leynt á að fara. Á þessi regla sér hliðstæðu í 24. gr. þingskapalaga.

Telja verður að mikilvægi þessa frumvarps verði ekki síst að skoða í ljósi núverandi efnahagsástands sem gert hefur að verkum að mörg fyrirtæki á markaði eru komin í ríkiseigu.“

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en vil ítreka að að þessu máli koma allir fjárlaganefndarmenn auk tveggja hv. þingmanna sem sátu í fjárlaganefnd á síðastliðnu einu og hálfu ári en breytingar urðu á fjárlaganefnd nú í byrjun febrúar. Það eru hv. þingmenn Björk Guðjónsdóttir og Guðbjartur Hannesson. En utan þess stendur öll fjárlaganefnd á bak við þetta frumvarp.

Ég fór hér í upphafi yfir E-hluta fyrirtækin og vil hvetja áhugafólk eða þá sem vilja kynna sér þetta mál betur, hvort heldur það eru hv. þingmenn eða aðrir, virðulegi forseti, að afla sér upplýsinga í ríkisreikningi eða öðrum gögnum. En í ríkisreikningi 2007 sem verður afgreiddur með lokafjárlögum ársins 2007, vonandi á næstu vikum hér á þinginu, er fjallað um rekstrarreikning þessara félaga, efnahag og sjóðstreymi og þar er sundurliðað nákvæmlega hvernig hlutirnir voru á árinu 2007. Síðan þá hafa vissulega bæst við nokkur fyrirtæki, þar með talið viðskiptabankarnir þrír, svo og félagið Keflavíkurflugvöllur ohf. sem stofnað var á síðasta ári.

Virðulegi forseti. Ég mælist til þess að eftir þessa umræðu verði málinu vísað til umfjöllunar í fjárlaganefnd og vonast til þess að það fari þar í umsagnarferli eins og venja er og leitað verði m.a. til Ríkisendurskoðunar og ráðuneyta hvað varðar þetta frumvarp fjárlaganefndar og tveggja hv. þingmanna.