136. löggjafarþing — 123. fundur,  1. apr. 2009.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

407. mál
[19:00]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Það vakti athygli í gær og ég var spurður hvers vegna ég hefði greitt atkvæði gegn þessu máli á þingi í gær. Ég skal með ánægju skýra það út í ræðunni sem ég ætla að halda um þetta annars ágæta mál. Eðli málsins samkvæmt hefði verið afar auðvelt að styðja málið út frá innihaldinu í því eins og það liggur hér fyrir. Þetta er í sjálfu sér hið besta efni, að veita ákveðinni atvinnugrein, þ.e. kvikmyndagerð á Íslandi, tækifæri til að búa betur um sig, koma sér betur fyrir, eiga meiri möguleika til þess að framleiða kvikmyndir með þeim hætti að breyta lögum sem í gildi eru um endurgreiðslu á framleiðslukostnaði kvikmyndagerðar á Íslandi úr 14% í 20%. Með því frumvarpi sem hér liggur fyrir er gert ráð fyrir að þetta verði gert þannig að það verði heimilað að ríkissjóður endurgreiði eða þetta hlutfall verði hækkað. Auk þess er gert ráð fyrir því í ákvæði til bráðabirgða í þessu frumvarpi að þeir sem hafa fengið vilyrði fyrir endurgreiðslu fyrir gildistöku þessara laga eigi kost á því að sækja aftur um endurgreiðsluhlutfallið eftir að það hefur verið hækkað, enda sé þá framleiðsla viðkomandi efnis ekki hafin.

Í kostnaðargreiningu fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins er sagt að markmiðið með þessari breytingu sé að jafna samkeppnisstöðu íslensks kvikmyndaiðnaðar gagnvart sambærilegri starfsemi í öðrum ríkjum og laða að fleiri verkefni og þessi styrking með hækkuðu endurgreiðsluhlutfalli kæmi þá til viðbótar gengislækkun íslensku krónunnar sem orðið hefur á undanförnum missirum og er vissulega mikil.

Meginatriðið í afstöðu minni sem ég byggði þátttöku mína í atkvæðagreiðslunni í gær á og greiddi atkvæði gegn þessu kemur fram í síðari hluta umsagnar fjárlagaskrifstofunnar sem ég ætla að fá að lesa hér. Það hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að hækka þurfi fjárheimild til endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar á Íslandi að jafnaði um 32 millj. kr. á ári eða úr 125 millj. kr. í 157 millj. kr. Er þá reiknað með að umfang kvikmyndaframleiðslu á Íslandi verði svipað á næstu árum og það hefur verið frá árinu 2006 en ef umfangið eykst má búast við því að endurgreiðslurnar hækki að sama skapi. Ekki er gert ráð fyrir þessum auknu útgjöldum í fjárlögum ársins 2009 né í áætluðum útgjöldum næstu fjögur árin. Að einhverju marki gætu komið skatttekjur af framleiðslunni á móti en vegna mikils halla á ríkissjóði mun að óbreyttu þurfa að fjármagna viðbótarútgjöld með lántökum.“

Á þessum grunni byggði ég afstöðu mína í atkvæðagreiðslunni í gær og tel algjörlega ófært að standa þannig að málum í dag, miðað við þau vandamál og þau verkefni sem uppi eru í fjárlagagerð íslenska ríkisins, að við getum undirgengist það með þessum hætti að ganga þannig til verka að taka eina atvinnugrein út fyrir sviga og veita henni frekari ívilnanir þegar fyrir liggur að fjölmargar atvinnugreinar í landinu mundu þiggja sambærilega fyrirgreiðslu og hér um ræðir.

Í því sambandi gætum við nefnt sprotafyrirtæki af ýmsum toga sem berjast í bökkum við að ná fjármögnun á þau verkefni, mörg hver mjög góð, sem í gangi eru. Við getum jafnframt nefnt tiltekin svæði á landinu sem stríða við mikið og vaxandi atvinnuleysi. Í stærra samhengi mætti nefna hér stórt mál sem væntanlega kemur til afgreiðslu fyrr en síðar á hinu háa Alþingi sem er fjárfestingarsamningurinn fyrir Norðurál í Helguvík, gríðarlega stórt mál og miklu meira að umfangi en þetta hér. Af ýmsum toga er því hægt að taka þessa umræðu ef maður vill ganga til þess verkefnis.

Eins og gefur að skilja voru þær umsagnir sem leitað var eftir og bárust iðnaðarnefnd vegna þessa máls gríðarlega jákvæðar. Hver þiggur það ekki á þessum tímum að fá aukna ívilnun, betri fyrirgreiðslu, þægilegra starfsumhverfi þegar allt er fremur þungbúið og frystir fremur að í þessum nýju greinum? Við fengum t.d. í iðnaðarnefnd umsögn frá stjórn SÍK, Sambandi íslenskra kvikmyndaframleiðenda, sem fagnaði gríðarlega tilkomu þessa frumvarps og lýsir að sjálfsögðu yfir eindregnum stuðningi við það og metur það sem svo að þetta geti orðið veruleg lyftistöng fyrir íslenska kvikmyndagerð og samhliða fjölgað störfum í greininni.

Forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands fagnar þessu sömuleiðis og vonast til að frumvarpið verði samþykkt.

Í greinargerð frá iðnaðarráðuneyti kemur fram í minnisblaði, í texta þar, að þar hafi í gegnum tíðina verið unnin rannsókn á því fyrir iðnaðarráðuneytið hver áhrif endurgreiðslna ríkissjóðs á ríkissjóðinn væru af þeim lögum sem hér um ræðir. Fyrst var slík rannsókn unnin af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands árið 2006 og síðar af Fjárfestingarstofu árið 2009. Ég ætla að fara aðeins yfir minnisblaðið síðar í ræðu minni en samanlagt er talið og er niðurstaða þessara tveggja stofnana — ég vil koma því mjög heiðarlega á framfæri — að þær telja að ríkissjóður beri ekki endilega byrði vegna endurgreiðslunnar og þar er horft til þess að skatttekjur ríkissjóðs, eins og segir, „eru að öllum líkindum hærri en sem nemur endurgreiðslunum“. — Og þá voru þetta úttektir sem miðuðust annars vegar við 12% endurgreiðsluhlutfall og hins vegar miðaðist úttektin hjá Fjárfestingarstofu sem var unnin 2009 við 20% endurgreiðsluhlutfall. — „Telja verður að þær tekjur sem ríkið hefur af framleiðslunni falli að mestu til á framleiðslutímanum í gegnum staðgreiðslu launa og óbeinna skatta, svo sem virðisaukaskatt af aðföngum til framleiðslunnar.“

Að sjálfsögðu á þetta við um hverja og eina atvinnugrein, ekki síður um aðrar atvinnugreinar en kvikmyndagerð og mætti færa rök fyrir þessu og gera þetta víðar eins og ég hef nefnt hér fyrr í ræðu minni.

Það kemur fram í rannsókninni sem Fjárfestingarstofa gerði og er mjög fróðlegt að skoða þann rökstuðning sem þar er teflt fram og tiltekin ákveðin verkefni. Það er gríðarlega mikill kostnaður sem felst í einu slíku stóru verkefni, þetta er dæmi um kvikmyndagerð á árinu 2005, heildarkostnaður verkefnisins er rétt um 864 millj. kr. sem er sundurliðaður í þeirri rannsókn sem hér er tilgreind. Áætluð staðgreiðsla og tryggingagjald vegna þessa verkefnis eru allt í allt 172 millj. kr. Samkvæmt gömlu og fyrstu reglunum þar sem endurgreiðsluhlutfallið var 12% mátti ætla að afkoma ríkisins væri þannig í 12% reglunni að ríkið hefði í tekjur af þessu 73 millj. kr. sem kemur til vegna þess að staðgreiðslan og tryggingagjaldið í krónum talið eru einhvers staðar um 176 millj. kr. en endurgreiðsluhlutfallið, 12%, væri um 103 millj. kr.

Við þessa hækkun aftur á móti hefði þetta verkefni farið þannig að afkoma ríkisins hefði verið nokkurn veginn á núlli, þ.e. við það að endurgreiðsluhlutfallið hefði hækkað úr 12% upp í 20% hefði ríkið þurft að fara að greiða til baka 173 millj. kr. en eins og áður sagði voru tekjurnar ætlaðar rétt um 176 millj. kr. þannig að þetta er nokkurn veginn á núlli.

Ábatinn í krónum talinn fyrir ríkið er í rauninni enginn en hins vegar má hafa í huga þegar menn meta þetta og vilja tala með málinu að afleidd áhrif af þessu, velta undirverktaka og eyðsla erlendra starfsmanna, ef því er að skipta, eru vissulega fyrir hendi og ber að meta.

Annað dæmi var tiltekið sem var miklu stærra verkefni sem var byggt á áætlunum frá því núna í mars 2009 þar sem talað var um að endurgreiðsluhæfur kostnaður verkefnis á Íslandi væri rétt um 3,3 milljarðar. Þá var gert ráð fyrir að áætluð staðgreiðsla og tryggingagjald sem er sá grunnur sem ríkið fær til sín í sköttum beint, staðgreiðsla af launum og vinnu, aðkeyptri þjónustu, innflutningskostnaður líka, rekstur bifreiða, áhalda og tækja o.s.frv. og annar kostnaður — þá má ætla að tekjur ríkisins af þessum þáttum væri um 737 millj. kr. Ef við gæfum okkur að þetta frumvarp væri orðið að lögum og endurgreiðsluhlutfallið væri orðið 20% kæmu í hlut framleiðendanna, þ.e. endurgreitt kæmi í þeirra hlut 655 millj. kr. sem þýddi að afkoma ríkisins af þessu verkefni þrátt fyrir þessa hækkun væri um 82 millj. kr.

Allar tölur í þessum dæmum eru, og það ber að undirstrika, án virðisauka og gert er ráð fyrir því í þessu stóra dæmi að verkefnið er þannig vaxið að það er gríðarlega umfangsmikið, það er gert ráð fyrir að þarna væri um að ræða 300 manns fyrir utan aukaleikara sem á sumum dögum er ætlað að gætu orðið um 300 einnig, þannig að um 600 manns væru hugsanlega á launaskrá suma daga í þessu. Áætluð ársverk væru á bilinu 95–120 og gistinætur — þá erum við að tala um þennan afleidda kostnað og afleidda ábata — 19.300 í heildina tekið.

Vissulega má halda því til haga að það er margt gott við þetta. Það sem ég hef bent á er að fyrir það fyrsta er fjárhagurinn með þeim hætti að það er ábyrgðarhluti að ávísa fram í framtíðina endurgreiðslu vegna þessa og þótt þetta sé í rauninni ekki ýkja há fjárhæð í stóra samhenginu er vissulega ákveðið fordæmisgildi fólgið í þessu.

Ég vil nefna hér að þetta eru tímabundin lög og gert er ráð fyrir að þau falli niður í árslok 2011. Hins vegar ber að hafa það í huga að þessi endurgreiðsla var sett í lög fyrir rúmum tveimur árum ef ég man rétt, nei, 2001 og þá var endurgreiðsluhlutfallið 12% og var hækkað á árinu 2006 í 14% og þá voru bundnar mjög miklar vonir við það að þessi hækkun á endurgreiðsluhlutfallinu mundi laða fleiri erlend verkefni að. Það er skemmst frá því að segja að við spurðumst fyrir um þetta í nefndinni og svörin frá ráðuneytinu voru þau, og kemur raunar fram í greinargerð með frumvarpinu, að við þessa hækkun á endurgreiðslustyrknum fjölgaði erlendu verkefnunum ekki nokkurn skapaðan hlut. Ábatinn af þessari hækkun úr 12 í 14% var í rauninni enginn. Hins vegar liggur fyrir að á árunum 2001–2008 hefur fjöldi styrkja samtals verið 59, heildarendurgreiðsla 980 millj. kr.

Þetta ber að hafa í huga þegar við ræðum þetta mál og ég get fullyrt að við höfum heldur ekki tryggt í hendi að við það að hækka endurgreiðsluhlutfallið úr 14% í 20% munum við njóta þess og sjá hér fleiri erlend verkefni koma og verða að veruleika í okkar annars ágæta fallega landi.