136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

stefna í ríkisfjármálum og verðmat nýju bankanna.

[14:06]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég verð að segja alveg eins og er hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur til hróss að það er ekki alveg kjarklaus manneskja sem kemur í ræðustól á Alþingi, talar fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins og ætlar nú að fara að kenna okkur hinum ábyrgð og heiðarleika í fjármálum. Það er ekki alveg kjarkleysi af Sjálfstæðisflokknum núna rétt eftir páskana að fara upp með málflutning af því taginu.

Ég tel að þessi ríkisstjórn hafi staðið fast í fæturna (Gripið fram í.) og glími vel við þau risavöxnu og erfiðu úrlausnarefni sem hún fékk óvænt í hendurnar. Ég held að þjóðin sé sama sinnis og það skyldi þó ekki koma í ljós innan 10–11 daga (Gripið fram í: 12.) hver dómur reynslunnar er hvað varðar vinnu þessarar ríkisstjórnar sem hefur sannarlega verið mjög starfsöm og gert mikið sem skiptir máli þó að menn geti vissulega alltaf óskað sér að hægt sé að gera betur. Ég kvíði alls ekkert þeim dómi og sérstaklega ekki ef sjálfstæðismenn verða sjálfum sér áfram verstir (Forseti hringir.) það sem eftir er þessarar kosningabaráttu (Forseti hringir.) eins og þeir hafa verið hingað til.