137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:10]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Síðustu orðin í ræðu hv. þingmanns glöddu mig töluvert mikið. Ég skildi hann þannig að vegna þeirrar stöðu sem uppi er varðandi myntina væri hann tilbúinn að skoða aðild að Evrópusambandinu. (Gripið fram í.) En hv. þingmaður spurði mig hvort utanríkisráðuneytið hefði t.d. látið skoða upptöku dollars og inngöngu í NAFTA eða einhliða upptöku evru. Það er alveg ljóst að a.m.k. í minni tíð hefur hið fyrra ekki verið skoðað. Hitt hefur verið í almennri umræðu í samfélaginu og starfsmenn mínir hafa tekið þátt í ráðstefnum einhvers konar og aflað upplýsinga fyrir þá sem hafa skoðað einhliða upptöku evru. Við þekkjum niðurstöðuna, það er leið sem menn telja ekki færa.