137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[22:12]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Enn og aftur vil ég ítreka að ég tel að hægt sé að stýra störfum í þinginu þannig að við náum öllum þeim markmiðum sem við ætlum okkar og þau eru fyrst og fremst að vanda málsmeðferð í því máli sem hér er til umræðu og í Icesave-málinu svokallaða. Önnur mál skipta auðvitað miklu máli en þessi tvö eru í forgrunni.

Ég tel að það séu ekki merki um vönduð og yfirveguð vinnubrögð að funda fram að miðnætti — við höfum verið að funda töluvert fram eftir að undanförnu — og hefja svo aftur fund á laugardegi, laugardagsmorgni. Ekkert liggur annað fyrir en að fundað verði fram eftir kvöldi annað kvöld. Ég fæ ekki séð að það séu markviss vinnubrögð eða til þess fallin að tryggja það að hér fari fram málefnaleg og yfirveguð umræða. Það er lítill bragur að því að Alþingi Íslendinga stýri málum eins og raun ber vitni.