137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[23:35]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var eins og ég óttaðist. Hér kemur hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og staðfestir það sem ég hélt fram að það var engin umræða um kostnaðarmatið í utanríkismálanefnd. Og það er algerlega hárrétt sem þingmaðurinn bendir á að það er ömurlegt til þess að hugsa að við séum að ræða þetta hérna á föstudagskvöldi 10. júlí á heitasta degi sumarsins þegar fólk er að hugsa um allt annað en 1.000 millj. sem á að henda í umsókn um Evrópusambandið.

Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir sem situr í utanríkismálanefnd og er hér í hliðarsal og eini fulltrúi stjórnarflokkanna í þessum sal, hefði kannski getað komið og farið í andsvar við mig og leiðrétt eða staðfest það sem ég hef verið að halda fram. Ég fer fram á það við þingmanninn að hún beiti sér fyrir því að einhver sem ber ábyrgð á þessu máli komi og geri grein fyrir þessu vegna þess að mér finnst þetta háalvarlegt mál. Og gleymið því ekki, eins og hv. þm. Pétur Blöndal hvíslaði að mér meðan hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var að tala, allur þessi kostnaður og Steingrímur ætlar ekki einu sinni inn. Hæstv. fjármálaráðherra ætlar ekki einu sinni inn í Evrópusambandið þannig að þarna getur fjármálaráðherra sparað 1.000 millj. á einu bretti, reyndar ekki sparað, ekki eytt þeim. Þessi hagfræði á kannski við hjá einhverri konu sem kaupir sér stundum skó af því að þeir eru á útsölu og sparar mjög mikið á því. Þetta er málið, hæstv. fjármálaráðherra er ekki sannfærður um að við eigum að fara inn í Evrópusambandið en hann er tilbúinn til að spandera í óskhyggju 1.000 millj., í raunveruleika einhverju miklu meira, til þess að athuga hvort svo megi verða.