137. löggjafarþing — 39. fundur,  11. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:03]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Víst er það rétt að ég fjallaði nokkuð um Evrópusambandið sem þá hugsjón sem það er og held að það sé sannarlega sjónarhorn sem eigi að halda til haga hér í umræðunni. En auðvitað er það ekki þannig að það leysi allan vanda. Enn þá er á Ítalíu til að mynda, sem er aðili að Evrópusambandinu, starfandi mafía, skipulögð glæpasamtök þrátt fyrir aðild þeirra að Evrópusambandinu. Ýmis önnur óáran er bæði þar og í öðrum ríkjum Evrópusambandsins. Ég er engu að síður viss um að þeim tekst betur að fást við viðfangsefni sín með evrunni í dag en þeim gekk áður með lírunni og sögufrægt varð svipað og með íslensku krónuna nú.

Hvað varðar það ef ekki næst að mati samninganefndarinnar ásættanleg niðurstaða miðað við það sem hér er lagt upp með þá er það auðvitað eins og oft er um „hvað ef“-spurningar, nokkuð sem stjórnmálaforustan þarf að taka afstöðu til ef og þegar þar að kemur, enda er það auðvitað þannig að þó að viðræður geti gengið hratt fyrir sig kannski á næstu tveimur til þremur árum þá geta þær líka dregist í lengri tíma. Ef þær skila ekki þeim árangri sem ætlast er til þá gera menn væntanlega hlé á þeim og ræða það aftur í sínum ranni hvernig á því skuli haldið. Af hálfu Íslendinga, mín og annarra, er kannski mikilvægast grundvallaratriði forræðið yfir auðlindunum og eignarhaldið á auðlindunum og það er ekki bara vegna aðildar að Evrópusambandinu heldur líka vegna þess að við höfum svo beisklega uppgötvað að við höfum tapað auðlindunum í hafinu. Þær voru einkavæddar af Sjálfstæðis- og (Gripið fram í.) Framsóknarflokki og þær (Forseti hringir.) voru veðsettar erlendum kröfuhöfum upp úr skýjunum.