137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:33]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er alveg klárt að ég hef kynnt mér mjög vel stjórnskipunarrétt Íslands og ég hef kynnt mér einstaklega vel þessi ákvæði varðandi þjóðaratkvæðagreiðslur. Meira að segja hef ég lent í djúpum og heitum umræðum við hv. formann utanríkismálanefndar um þetta og erum við ekki alveg samstiga í því máli því svo virðist sem hv. þingmaður átti sig ekki á því um hvað málið snýst eins og hefur komið fram.

Eins og stjórnarskráin er núna er hægt að hafa bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu á þrenns konar tilvikum. Það er ef forseti neitar að skrifa undir lög, þegar breytt er skipan kirkjunnar og ríkisins og svo þegar Alþingi ákveður að víkja forseta frá sem hefur aldrei gerst. Önnur ákvæði höfum við ekki. Þess vegna hef ég bent á það í ræðu og riti að við verðum að breyta stjórnarskránni sem kemur e.t.v. inn á það sem ég var að tala um áðan að þessi aðildarumsókn er raunverulega brot á stjórnarskránni af því að við höfum ekki fullveldisafsalsákvæði þar. Ef stjórnvöld vissu hvað þau ættu í fyrsta lagi að gera og vissu hvað þau eru að gera þá væri búið að breyta stjórnarskránni (ÁÞS: Var Sjálfstæðisflokkurinn ekki á móti því?) og við værum ekki í þeirri réttaróvissu sem við stöndum núna frammi fyrir. Þar með væri búið að setja fullveldisákvæðisafsal í stjórnarskrána þar sem skýrt væri kveðið á um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu, að sjálfsögðu. Þjóðin á að hafa lokaorðið í þessu máli. Ég treysti ekki þeirri ríkisstjórn sem nú situr fyrir því að fara að vilja þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu sem við gætum allt eins kallað skoðanakönnun meðal þjóðarinnar.