137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:42]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. formanni utanríkismálanefndar fyrir yfirferð hans. Það er eins og maðurinn ætli ekki að skilja hvernig mín ræða byggist upp. Ég var að segja það að ég legg fram þessa breytingartillögu sem ég fór yfir og reifaði og las upp út af því að það er ekki ákvæði um auðlindir inni í þingsályktunartillögunni sem liggur fyrir þinginu frá ríkisstjórninni. Ég er búin að reifa og hv. þm. Höskuldur Þórhallsson líka og fleiri hvernig lagasetning er byggð upp og hvað er það sem mark er takandi á í þingsályktunum og lögum. Ég ætla ekki að eyða meiri tíma í að fara yfir þau mál. Það eru alveg hreinar línur. Þetta er plagg sem liggur fyrir þinginu. Það er ein blaðsíða sem skiptir máli í því, það er bls. 39 því þar kemur fram hvað á að standa í þeirri þingsályktun sem verður farið með til Brussel. Annað eru í raun og veru bara útskýringar og þetta verður hv. þingmaður að fara að skilja. Út af því er þessi breytingartillaga komin fram og ég rakti það mjög vandlega áðan.

Varðandi stjórnskipunarmálin sem hv. þingmaður fór svo yfir, það virðist vera búið að taka ákvörðun um það hjá ríkisstjórninni og það liggur fyrir þingsályktunartillaga um að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það er verið að bjarga þessari ríkisstjórn undan miklu sliti og skömmum með því að reyna að finna leiðir út úr þeirri ákvörðun sem nú þegar er búið að taka og það er rökstutt í þessu fylgiskjali sem er frá þeim stjórnskipunarfræðingum sem þingmaðurinn minntist á. Ef hv. formaður utanríkismálanefndar mundi lesa með réttum gleraugum fylgiskjal VIII með þessari tillögu þá mundi hann skilja um hvað málið snýst. Þau eru að reyna að vinna þetta út frá því að það liggur fyrir þingsályktunartillaga nú þegar. Það er verið að vinna málin eftir á.