137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Við erum að ræða hér mál sem varðar langt inn í framtíðina, jafnvel 100, 200 eða 300 ár (TÞH: 600) — eða 600 eins og þegar Gamli sáttmáli var samþykktur. Hv. þingmaður talar mikið um auðlindir og samkvæmt orðanna hljóðan er auðlind lind sem auður sprettur úr. Ég tel reyndar að landbúnaður og sjávarútvegur hafi ekki verið auðlindir hér á Íslandi fyrr en tækniþekkingin varð svo mikil að þær greinar sköpuðu einhvern auð. Fram undir sjálfstæði Íslands eða fullveldi voru Íslendingar mjög fátækir þrátt fyrir þessar svokölluðu auðlindir.

Fyrsta rafstöðin tók til starfa 1904 þannig að hún er mjög ný. Norðurleiðin er enn þá nýrri, mannauðurinn er líka skilgreiningaratriði, landslag og vatn, allt er þetta tiltölulega mjög nýtt. Ég spyr hv. þingmann: Er hún einhvern veginn búinn að halda utan um allar auðlindir sem hugsanlega geta komið til á næstu 200 árum? Ég held ekki. Menn þurfa að hafa miklu meira ímyndunarafl til þess að sjá fyrir sér allar þær auðlindir sem geta sprottið upp.

Svo langar mig til að þakka hv. þingmanni fyrir þá hugljómun að þessi þingsályktunartillaga gæti verið stjórnarskrárbrot því að ég heyrði það í hennar fyrstu ræðu og greip þá hugsun á lofti og finnst það vera mjög rökrétt. Stjórnarskráin er þarna, það er ekki búið að breyta henni, það getur enginn maður sagt að henni verði breytt því að það er þjóðin sem tekur ákvörðun um það. Hún er því þarna og það sem Alþingi er að gera þarf að vera í samræmi við stjórnarskrá og þingmenn hafa jú svarið eið að stjórnarskránni. Ég nefndi það í ræðu í gær að menn gera allt til þess að laga lög þannig að þau falli að stjórnarskránni.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Hver kærir hvern? Ég hef mikinn áhuga á því.