137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:19]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þarna erum við komin að merg málsins, það er verið að fela þjóðinni þetta með einhverri sýndarmennsku. Þjóðin á að fara að greiða atkvæði sem er ekki bindandi. Þar að auki hefur hæstv. fjármálaráðherra talað eins og hann sé nánast viss um að málið verði fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þarna er verið að fara í mikinn kostnað, peningalegan kostnað, mannaflsfrekar aðgerðir með því að fara að senda fólk utan og annað eins og ég hef rakið. Og það er raunverulega vitað í upphafi að þjóðin kemur til með að fella samninginn þannig að þetta er afar einkennilegt. Fyrir svo utan það að Vinstri grænir eru að setja þetta mál á dagskrá. Þó að málið sé umrætt í þjóðfélaginu þá eru það Vinstri græn sem eru að setja það á dagskrá.

Í Kaupmannahafnarviðmiðunum á bls. 6 koma fram þau skilyrði sem þjóðin þurfi að uppfylla til að komast yfir höfuð inn í sambandið. Ég vil biðja hæstv. menntamálaráðherra að svara því hvort hún telji að Íslendingar uppfylli þau skilyrði og þá sérstaklega það sem snýr að mannréttindum. Finnst menntamálaráðherra það mannréttindi að hér sé fólk og fyrirtæki, fjölskyldur og heimili að brenna upp. Eru það mannréttindi?