137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:47]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur ekki verið lagt sérstakt mat á þetta í ráðuneytinu og ég veit ekki hvaða upplýsingar eru lagðar til grundvallar í kostnaðaráætlun utanríkisráðuneytisins en allt þetta er hægt að endurskoða og fara yfir. (Gripið fram í: Heldurðu að Alþingi samþykki þetta?) — Ég held, og ég treysti því, að Alþingi hafi fullan metnað til þess að verði tillagan samþykkt verði staðið að aðildarviðræðum með fullnægjandi og sómasamlegum hætti og þar verði kappkostað að standa sem best að málum. Ég mun leggja mig fram og mitt ráðuneyti og eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sagði réttilega er þar, og í stofnunum ráðuneytisins, öflugt og gott starfsfólk. Þar mun enginn liggja á liði sínu við að inna af hendi góða vinnu. Það munum við gera — fari svo að aðildarumsókn fari af stað eins og er lagt til í þingsályktunartillögunni.