137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[21:11]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi síðasta atriðið er ég sammála mati hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar að Ísland verði ekki komið í neitt sérstakt skjól af Evrópusambandinu hvorki varðandi efnahagsmál né fjárhagsmálefni, peningamál né annað. Ég held að allar fullyrðingar sem fram hafa komið í opinberri umræðu um hið gagnstæða séu byggðar á tómri óskhyggju.

Varðandi hins vegar það sem hv. þingmaður nefndi og hæstv. utanríkisráðherra hefur svo gott sem vísað til um hugsanlegan fjárhagsstuðning — hæstv. utanríkisráðherra nefndi það sérstaklega vegna þýðinga — þá get ég ekki annað en tekið undir þau orð sem féllu í umræðum í dag að það er auðvitað mjög sérstakt að ætla að fara í samningaviðræður við einhvern aðila og ætla að vera rosalega harður á samningsmarkmiðunum og segja svo: Áttu ekki einhverja aura handa mér svo ég geti komist aðeins áleiðis í þessu? Það er ekki góður bragur á því og ekki mikill sómi fyrir sjálfstætt ríki að standa þannig að málum. (Gripið fram í.)

Ég hygg líka (Forseti hringir.) að slíkur fjárhagsstuðningur sé fyrst og fremst veittur þjóðum sem eru raunverulega fátækar en þrátt fyrir allt erum við Íslendingar það ekki.