137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[21:19]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi síðasta atriðið verð ég að játa að ég hef ekki hugleitt það þannig að ég ætla að taka mér betri tíma til að hugleiða það hvert eigi að kæra ef menn telja að verið sé að brjóta stjórnarskrána með þessu ferli. Ég vildi hins vegar segja að þrátt fyrir að við hv. þm. Pétur Blöndal séum hygg ég afar sammála um öll meginatriði í sambandi við Evrópusambandsmálin þá er ég ekki viss um að við séum sammála um þann skilning að það sé stjórnarskrárbrot að hefja viðræður. Ég get ekki séð að Alþingi sé óheimilt að fela stjórnvöldum að fara í viðræður að óbreyttri stjórnarskrá þótt það sé hins vegar ankannalegt. Það er að mínu mati ankannalegt að Alþingi feli stjórnvöldum að fara í ferli sem á að enda með samkomulagi sem síðar þarf stjórnarskrárbreytingu til að fullgilda eða staðfesta. Ég hef ekki verið tilbúinn til að halda því fram í þessari umræðu að samþykkt Alþingis á þessari þingsályktunartillögu eða framgangur samningaviðræðna sem slíkur væri óheimill þrátt fyrir ákvæði stjórnarskrár. Hins vegar er alveg ljóst að ekki er hægt að fullgilda samninginn fyrr en stjórnarskránni hefur verið breytt.

En það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður bendir á að það er auðvitað undarleg röð á hlutunum að byrja að samþykkja ályktun sem er ekki stoð fyrir í gildandi stjórnarskrá, fara síðan í viðræður sem er ekki stoð fyrir í stjórnarskránni, fara í þjóðaratkvæðagreiðslu sem er ekki stoð fyrir í stjórnarskránni og ætla síðan að breyta stjórnarskránni. Það er auðvitað mjög einkennileg röð á hlutunum.