137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[22:07]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla Evrópusambandinu ekki annað en það að í haust höfðu menn virkilega áhyggjur af því úti um allan heim og þar með talið í Evrópu að hér væri um að ræða enn alvarlegri hluti en hafa orðið. Ég ætla Evrópusambandinu og ríkjum þess ekki neitt annað en að hafa af einlægni haft áhyggjur af því að það yrði svokallað, á slæmri íslensku, „run“ á bankana, að innstæðueigendur úti um alla álfu mundu hlaupa til og taka innstæðurnar út. Ég held að menn hafi alveg verið meðvitaðir um að kerfið var meingallað, algjörlega meðvitaðir um að það væri ekki gert til að eiga við katastrófur en þeir höfðu áhyggjur af þessu. Af því höfðu þeir mestar áhyggjur en voru örugglega ekki að hugsa um hagsmuni Íslands. Sú staða er ekki uppi núna.

Af því að hv. þingmaður spyr um tengslin er ég algjörlega viss um að ef ekki er búið að ganga frá þessu máli — og ég tel að við eigum að reyna að fá aðra úrlausn en nú liggur á borðinu og að það sé verkefni okkar þingmanna að fá hana — að þá er Evrópusambandið ekki tilbúið til þess að tala við okkur, alveg á sama hátt og það er ekki til í að tala við Króata út af þessum þáttum. Ég held að það sé ákveðinn barnaskapur hjá þeim sem berjast núna hvað harðast fyrir að keyra þetta í gegn að halda að við fáum einhverjar ívilnanir, ef við bara gefum eftir í Icesave þá hljótum við að fá eitthvað ofsalega miklu meira í Evrópusambandinu. (Forseti hringir.) Ég tel það vera pólitískan barnaskap.