137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:03]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þetta svar en vísir menn hafa talað um að þeir bjartsýnustu, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir, séu sammála um að þetta gæti verið um það bil 7 ár, aðrir hafa spáð 10–30 árum. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að sjálfsögðu að stefna að því að uppfylla Maastricht-skilyrðin, hvort sem við sækjum um aðild að Evrópusambandinu eða ekki vegna þess að þau eru einfaldlega heilbrigðisvottorð um að efnahagslífið og efnahagskerfi þjóðarinnar standist.

Hv. þingmaður talaði um það í ræðu sinni að þingmenn væru að koma sér saman um meðferð þessa máls. Þar er ég ósammála vegna þess að ríkisstjórnarflokkarnir eru einfaldlega alls ekki sammála um málsmeðferð. Hér hafa komið fram þingmenn sem hafa talað fyrir því að hér verði viðhöfð tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla og hv. þingmaður leyfði sér að kalla það lýðskrum sem er mér algerlega óskiljanlegt. Ég hélt að þjóðinni væri treystandi til að taka ákvarðanir og ég hef talið Samfylkinguna vera á þeirri skoðun hingað til en mig langar þá að spyrja hv. þingmann um seinni hluta þingsályktunartillögu sjálfstæðismanna, um það að vera með ekki ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu eftir að aðildarsamningur liggur fyrir heldur bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu.