137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:04]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hvort við erum að tala um 7 ár, 10 ár eða 30 ár að upptöku evru verður tíminn að leiða í ljós. Við getum bara vonað það besta en ég tek undir það með hv. þingmanni Unni Brá Konráðsdóttur, eins og kom fram í máli mínu áðan, að ferillinn að því að ná Maastricht-skilyrðunum er heilandi í sjálfu sér og hvort sem við göngum inn í Evrópusambandið eða ekki ættum við að stíga þau skref.

Varðandi lýðræðisumræðuna sé ég ekki tilgang í því að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu núna um hvort við ætlum í þessar aðildarviðræður vegna þess að þjóðin hefur í raun og veru ekki forsendur til að taka neina afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu. Það er hlutverk okkar stjórnmálamanna að kynna málið þannig fyrir þjóðinni að hún hafi eitthvert val, að hún hafi einhverjar raunverulegar og raunhæfar upplýsingar um það sem verið er að taka afstöðu til.