137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:09]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég kannast ekki við bolabrögðin sem hv. þingmaður er að tala um. Þegar ég tek til máls í þessari umræðu geri ég það með góðri samvisku, lýsi minni hjartans sannfæringu í þessu máli og þeirri framtíðarsýn sem ég hef og þeirri von sem ég ber í brjósti fyrir mína þjóð.

Varðandi það að hér sé verið að halda upplýsingum frá þjóðinni, og þá er hv. þingmaður væntanlega að tala um þau skýrsludrög sem voru til umræðu fyrr í dag, þá heyrði ég ekki betur en hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafi einmitt gert þá skýrslu að umtalsefni í umræðum í gær. Hún var ekki meira leyndarmál en það. (JónG: Ég minntist á þetta í ræðu minni á mánudaginn.)