137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:27]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég sá í fréttum í morgun að búið væri að ná samkomulagi um að ljúka umræðum í þinginu um Evrópusambandsmál í dag og greiða um þau atkvæði í dag. Þessu þarf maður víst að venjast sem þingmaður að það er sífellt verið að reyna að stýra umræðunni með því að leka út einhverri tómri vitleysu. Það liggur ekki fyrir neitt slíkt samkomulag. Það var að vísu rætt á fundi formanna flokkanna í gær að það kynni að vera æskilegt að ná samkomulagi um hvenær umræðum lyki. En frá því var ekki gengið. Ég ítrekaði það að minnsta kosti þrisvar sinnum svo það væri alveg á hreinu að slíkt samkomulag lægi ekki fyrir en það mætti skoða það í dag. Svo hefur í dag komið í ljós eina ferðina enn að það er nú ekki allt með felldu í umræðunni um þetta mál og vantar ýmis gögn og upplýsingar og það finnast sífellt fleiri skýrslur sem enginn virðist hafa vitað af svo ég held að okkur veiti ekkert af því að ræða þetta mál aðeins áfram.