137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[16:32]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu var hv. þm. Álfheiður Ingadóttir að skjóta föstum skotum að Samfylkingunni þegar hún ræddi Icesave-samningana. En þeir margfölduðust í tíð Samfylkingarinnar sem fór með viðskiptaráðuneytið um tveggja ára skeið. (ÁI: Þvílík ósköp.) Þvílík ósköp. Já, ósköpin eru þau að þeir eru í dag og greiðslur vegna þeirra, eins og hv. þingmaður nefndi, 640 milljarðar. Og þegar hv. þingmaður talar um að nú þurfi að gæta aðhalds í rekstri hins opinbera vil ég minna hv. þingmann á að ef við samþykkjum Icesave-samningana þurfum við að greiða vexti frá áramótum upp á 24 milljarða kr. Hvaða sanngirni er í því? Það eru meiri rosalegu samningarnir sem gerðir voru og þessir 24 milljarðar eru á þessum lágu vöxtum, 5,55%, en það eru 24 þúsund millj. og það má reka Landspítala – háskólasjúkrahús í níu mánuði fyrir þessa upphæð, (Gripið fram í.) níu mánuði. Þar vinna þúsundir einstaklinga og þetta er endastöðin í íslensku heilbrigðiskerfi. Síðan eru menn að tala um 15 og 20 millj. hér og þar í ríkisrekstrinum. Það á að skera niður í Heilbrigðisstofnuninni á Hólmavík, það á að gera það á Siglufirði og það á að gera það alls staðar annars staðar. Engin undankomuleið. Menn ætla að skrifa undir það að borga 24 milljarða frá áramótum vegna Icesave-samningana, sem sagt afturvirkt áður en þeir skrifa undir. Hvers lags stjórn er við lýði í þessu landi? Þegar hv. þingmaður heldur því fram að Samfylkingin — mér fannst hv. þingmaður eiginlega vera að bera blak af Samfylkingunni. Er það svo að það sé Framsóknarflokknum að kenna að Icesave-samningarnir urðu 640 milljarðar? Hvernig getur hv. þingmaður komið hér upp og vogað sér að segja slíka hluti? (Forseti hringir.) Hv. þingmaður skal hafa sannleikann að leiðarljósi í því máli. Auðvitað ber Samfylkingin höfuðábyrgð á Icesave-klúðrinu öllu saman.