137. löggjafarþing — 59. fundur,  28. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[09:30]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að hefja mál mitt á því að færa þakkir þeim nefndarmönnum og þingnefndum sem sumar hafa lagt mikla vinnu á sig í þessu máli. Þar hefur mest mætt á fjárlaganefnd og ég endurtek að sjaldan, ef nokkru sinni, hefur þingnefnd fengið stærra og umfangsmeira mál í hendur og lagt jafnmikið á sig við að reyna að vinna það vel og af samviskusemi fram til farsællar lausnar. Það eiga allir sem þar hafa lagt hönd á plóginn þakkir skildar, fulltrúar bæði meiri hluta og minni hluta, og auðvitað ekki síst formaður nefndarinnar sem og þeir nefndarmenn aðrir í utanríkismálanefnd og efnahags- og skattanefnd sem einnig lögðu mikla vinnu í þetta mál.

Þetta er vissulega stórt og erfitt mál og engu okkar gleðiefni sem að því hefur þurft að koma. Hér hafa fallið mörg stór orð, og miklar túlkanir og söguskýringar hafa verið uppi hafðar. Það er athyglisvert að þær hafa aðallega verið um lánasamninginn og tilraunir til að leysa úr málinu en minna um vandamálið sjálft. Orka manna hefur farið, að því er virðist, mjög í það á lokasprettinum að færa umræðuna, athyglina og sökina af vandamálinu sjálfu, þeim sem bjuggu það til, þeim sem bera á því ábyrgð, pólitíska, efnahagslega og með störfum sínum, sérstaklega í viðkomandi banka, yfir á þann hluta ferlisins sem hefur miðað að því að leysa málið.

Ég tel ekki að sú söguskýring muni halda lengi, að gera þá að sökudólgum í þessu máli sem hafa að því komið að reyna að leysa það. Að sjálfsögðu má deila um það og gagnrýna hvernig þar hefur tekist til, allt frá byrjun, allt frá því að hrunið varð og menn urðu við ógnarerfiðar aðstæður að bregðast við og taka ákvarðanir sem eftir á að hyggja hefðu kannski mátt vera öðruvísi, en það tökum við ekki upp. Liðið er liðið. Við færum klukkuna ekki til baka, hversu mikið sem við vildum. En það er að sínu leyti ánægjulegt að umræðan hér hefur þróast þannig eins og heyra mátti í ræðum áðan og í gær að flestir telja sig hafa náð miklum árangri, að málið hafi verið betrumbætt og að stjórnarandstaðan, jafnvel Framsóknarflokkurinn sem ekki hefur þó staðið að breytingum á málinu, telur sig hafa náð miklum árangri með málflutningi sínum og störfum. Það er gott. Þá geta væntanlega flestir verið ánægðir ef þeir telja að þeir hafi náð að leggja gott af mörkum með störfum sínum og flestir séu jafnvel orðnir einhvers konar sigurvegarar í málinu — nema náttúrlega ég, að allir séu í raun og veru sigurvegarar í þessu nema ég. Og þá skal því lýst yfir hér að ég tek það hlutskipti að mér með glöðu geði að vera eini maðurinn sem ekki er sigurvegari í þessu ferli. Og verður mér þá hugsað til Holta-Þóris og veislunnar forðum þar sem stefndi í mikið óefni með að raða mönnum eftir tignarröð til sætis, en þá var það hann gamli Holta-Þórir sem leysti vandann því að hann settist ystur virðingarmanna, eins og það var orðað í bókinni, og þótti þá öllum gott að sitja þar sem þeir voru. Ég skal vera Holta-Þórir þessa máls og setjast fjærst háborðinu ef það gleður aðra. Og eru þá allir sáttir við sitt hlutskipti.

Mér hefur aldrei gengið neitt annað til í þessu máli en eitt, að leysa það. Það verður að gera, undan þessu komumst við ekki og það hefur legið fyrir lengi að verkefnið væri að leita að skástu mögulegu lausninni á þessu vandamáli þannig að það væri úr vegi og við kæmumst áfram með okkar endurreisnarstarf. Það er eðlilegt að þetta mál sé umdeilt og erfitt og það gat aldrei orðið annað, það gat aldrei komið heim lítill og sætur samningur til að leysa stórt og vont mál. Þannig er um hnútana bundið.

Það er ástæðulaust að ætla nokkrum þeim sem að þessu hefur komið að hafa gert það á öðrum forsendum en þeim sem hann taldi best í þágu íslenskra hagsmuna. Ég kvarta undan engu sem um mig er sagt í þessum efnum, en það eitt sárnar mér þegar reynt er að gera saklausa fjarstadda embættismenn og fulltrúa Íslands í þessu erfiða máli að sökudólgum með ómaklegum hætti, fólk sem ekki er hér til að bera hönd fyrir höfuð sér úr ræðustóli á Alþingi og hefur ekkert annað gert en að vera fulltrúar stofnana sinna og ráðuneyta eða stjórnvalda í erfiðu viðfangsefni og reyna að gera þar sitt allra besta. Það er ekki uppbyggilegt og þjónar engum tilgangi að draga þessa hluti upp þannig eins og þetta væri kúrekamynd í vestrinu, að í þessari mynd séu tvenns konar leikarar, góðir menn og vondir menn, þjóðhollir menn og aðrir sem eru það þá væntanlega ekki, hetjur og aumingjar og skúrkar hinum megin. Þannig er myndin ekki og ég held að smátt og smátt muni ræðuhöld byggð á þeim grunni dæma sig sjálf.

Hér er eitt mjög mikilvægt sem við verðum auðvitað að hafa að leiðarljósi umfram aðra hluti, raunsæi. Það þýðir ekkert annað en að horfast af raunsæi í augu við aðstæður okkar og þann vanda sem okkur hefur borið að höndum og horfa af raunsæi á möguleikana til að greiða úr þeim hlutum. Óskhyggja kemur okkur ekkert áleiðis í þeim efnum, málflutningur sem byggir á því að veruleikinn sé einhvern veginn öðruvísi en hann er eða að við séum stödd einhvers staðar annars staðar en við erum. Þessu breytum við ekki. Úr okkar aðstæðum verðum við að vinna af raunsæi og í viðurkenningu þess að við erum hér og nú stödd þar sem við erum, þessum mánuðum eftir hið skelfilega hrun, og þurfum að vinna úr þeim hlutum áfram. Alþingi fól framkvæmdarvaldinu í desember að leiða þetta mál til lykta með samningum. Þá þegar höfðu menn gengist undir það að ekki var annað í boði en pólitískt samkomulag sem leið út úr þessu máli og henni er verið að landa hér á þann besta hátt, að ég tel, sem aðstæður bjóða upp á. Og það skal vera alveg skýrt af minni hálfu að ég tel að sú umgjörð sem Alþingi er hér að setja utan um þetta mál sé til bóta, hún styrki stöðu okkar, sérstaklega þegar eða ef á það reynir að virkja þurfi endurskoðunarákvæði samninganna, þá sé það styrkur að við höfum sett þessa hluti í efnahagslega og að hluta lagalega umgjörð sem er málefnaleg og sanngjörn, sem á að vera hægt að útskýra og réttlæta gagnvart viðsemjendum okkar. Það verkefni bíður og við verðum bara að vera vongóð um að menn hafi skilning á því að það er svona sem Alþingi Íslendinga og íslensk stjórnvöld telja að við getum staðið við skuldbindingar okkar í þessum efnum.

En það er auðvitað framtíðin sem öllu skiptir. Við getum rætt lengi, mörg sumur þess vegna, um liðna atburði og það sem við erum að fást við dag frá degi, en það er framtíðin sem skiptir öllu máli. Þar vonum við auðvitað að við séum að efna til farsællar lendingar í þessu máli sem og að búa okkur í haginn til að takast á við allt það annað sem við er að glíma og ég spái að muni nú fanga athygli þjóðarinnar mjög á næstum vikum, mánuðum og missirum og umfram þetta mál.

Það eru erfiðleikar yfirstandandi, við höfum orðið fyrir miklu áfalli, við höfum verk að vinna í þeim efnum, það eru erfiðir tímar fram undan, það er erfiður vetur fram undan — en framtíðin er líka björt. Framtíðin er líka björt á Íslandi. Hún er það vegna þess að við höfum alla möguleika, alla burði og öll efni til þess að vinna okkur í gegnum erfiðleikana. Það er rétt sem hér var sagt, ef við skoðum núverandi aðstæður og erfiðleika í sögulegu samhengi og berum það saman við ýmislegt sem þjóðin á erfiðum tímum á umliðnum áratugum og öldum stóð frammi fyrir er okkur auðvitað engin vorkunn nú með öll þau efni sem við höfum, úrræði og möguleika, að vinna okkur í gegnum þetta. Engin vorkunn. Með okkar ríku auðlindir, uppbyggða samfélag, sterku innviði, góðu menntun og dugnað og þor er okkur ekkert að vanbúnaði að halda nú áfram að afloknu þessu máli og takast á við erfiðleikana af fullum krafti, vonandi í sem mestri samstöðu, að sjálfsögðu, því að hver óskar sér ekki hennar ef hún er í boði? Á hinn bóginn skulu sjálfstæðismenn og aðrir ekki hafa neinar áhyggjur af því að það er ríkisstjórn í landinu sem er fullfær um að takast á við þessi verkefni og ætlar sér það, en hún er að sjálfsögðu þakklát fyrir alla aðstoð og stuðning og skilning sem hún fær í verkum sínum.