138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

fjarskipti.

57. mál
[15:36]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003.

Meginmarkmið frumvarpsins eru:

Í fyrsta lagi að lækka álagt jöfnunargjald og færa til samræmis við áætluð útgjöld vegna alþjónustu.

Í öðru lagi breytingar á fjarskiptalögum vegna innleiðingar á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 544/2009, sem ætlað er að bæta vernd neytenda og setur hámarksgjöld fyrir ýmsa farsímaþjónustu utan heimaríkis.

Jöfnunarsjóður alþjónustu stendur straum af kostnaði vegna alþjónustu en alþjónustuveitendur geta sótt um framlög til sjóðsins. Sjóðurinn er fjármagnaður með jöfnunargjaldi sem lagt er á öll starfandi fjarskiptafyrirtæki í landinu. Er gjaldið ákveðið í 22. gr. laga nr. 81/2003, um fjarskipti. Samkvæmt 3. mgr. greinarinnar skal fjárþörf vegna alþjónustu endurskoðuð árlega af Póst- og fjarskiptastofnun með hliðsjón af fjárþörf sjóðsins og niðurstaða hennar ásamt tillögu um breytt gjaldhlutfall lögð fyrir samgönguráðherra ef þörf þykir.

Með lögum nr. 143/2007 var gjaldið hækkað úr 0,12% í 0,65% til þess að mæta óvæntri útgjaldaaukningu úr jöfnunarsjóði í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 1/2007. Aftur á móti þykir ekki þörf á svo háu jöfnunargjaldi þar sem ekki hefur verið sótt um frekari framlög úr jöfnunarsjóði alþjónustu umfram framlag til Neyðarlínunnar. Því er lögð til lækkun þess í samræmi við tillögur Póst- og fjarskiptastofnunar á grundvelli fjárþarfar sjóðsins sem er 0,10%. Er áætlað að heildartekjur jöfnunarsjóðs á árinu 2009 verði í kringum 35 milljónir og lækkar því sem nemur um 163 milljónir, sem er það framlag sem Símanum var ákvarðað með úrskurði úrskurðarnefndar nr. 1/2007, eins og áður hefur verið greint frá.

Með áðurnefndri reglugerð um reiki er gildistími gildandi reglugerðar um sama efni framlengdur um tvö ár. Jafnframt er gildissvið reglugerðarinnar víkkað út svo hún nái yfir annars konar alþjóðlega reikiþjónustu í farsímanetum auk hefðbundinna símtala, svo sem SMS, MMS og gagnaflutningsþjónustu í farsímanetum, ásamt öðrum ákvæðum sem ætlað er að styrkja neytendavernd. Eitt meginákvæði hennar er að setja hámarksverð á alþjóðlega reikiþjónustu og setja reglur um tímamælingar fyrir gjaldtöku.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. samgöngunefndar.