138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

89. mál
[14:58]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að þessum áfanga skuli hafa verið náð í þeim framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru í Helguvík og ég held að allir þingmenn geti verið ánægðir með frumvarpið sem liggur fyrir þinginu og ástæða er til þess að óska hæstv. iðnaðarráðherra, Suðurnesjamönnum og öllum til hamingju með það skref sem stigið er.

Um leið er það auðvitað áhyggjuefni, eins og fram hefur komið í umræðunni, hvernig á málum hefur verið haldið varðandi þetta mikilvæga þjóðþrifaverkefni. Því miður er það þannig í þeim málum sem snúa að ríkisstjórninni að þegar kemur að því að nýta auðlindir Íslendinga til þess að vinna okkur út úr þeim vanda sem við er að etja þá hafa mönnum verið mjög mislagðar hendur. Það gefur auga leið og enginn þarf að velkjast í vafa um það að þegar ríkisstjórnin fór fram með fjárlagafrumvarp sitt og lagði til mikla skattheimtu á allan orkuiðnað í landinu þá fóru að sjálfsögðu mörg þau verkefni sem hafa verið innan seilingar fyrir okkur Íslendinga í fullkomið og algjört uppnám. Nú hafa menn á undanförnum vikum, frá því að fjárlagafrumvarpið var lagt fram, róið lífróður til þess að reyna að bæta fyrir þann skaða sem hæstv. fjármálaráðherra gerði þjóð sinni með framlagningu frumvarpsins, svo augljóst var að þar voru mistök á ferðinni.

Orkuskattur eins og sá sem ætlað er að leggja á þau fyrirtæki sem hér starfa er augljóslega slæmur kostur. Við sáum t.d. á dögunum garðyrkjubændur lýsa skoðun sinni á slíkri skattheimtu og hvaða afleiðingar það hefði í för með sér að hækka orkuverð til þeirra.

Það sama gildir auðvitað um aðra skattheimtu. Hún hefur sömu áhrif þó að þau séu ekki jafnaugljós og í tilfelli garðyrkjubænda þar sem menn geta talið agúrkurnar og rósirnar sem aldrei verða ræktaðar vegna þess að skatturinn verður lagður á. Sama gildir um aðra skattheimtu. Þess vegna verða menn að fara mjög varlega þegar þeir setja fram hugmyndir um skatta og nýja skatta og því miður gerði hæstv. fjármálaráðherra það ekki þegar hann lagði fram fjárlagafrumvarpið.

Eins er með aðrar atvinnugreinar sem byggja á náttúruauðlindum eins og sjávarútveginn. Ég hjó eftir því hjá hæstv. iðnaðarráðherra að ráðherrann hæstv. talaði um að margar stoðir væru undir atvinnulífinu og við ættum ekki að etja atvinnugreinum saman og það er alveg hárrétt. En það virðist bara vera þannig með þessa ríkisstjórn að hún má hvergi sjá styrka stoð þannig að ekki séu uppi áform um að veikja hana.

Sérstakt dæmi er t.d. sjávarútvegurinn, sem er sú styrka stoð sem kannski skiptir okkur einna mestu máli í því að vinna okkur út úr þeim vanda sem við eigum við að etja. Þá liggur fyrir í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að það á að innkalla aflaheimildir, á hverju ári á að þjóðnýta hluta af aflaheimildunum og færa til ríkisins frá útgerðunum í landinu. Þessi hótun sem birtist í stjórnarsáttmálanum hefur valdið því að menn halda að sér höndum í sjávarútvegi á Íslandi akkúrat þegar við þurfum á því að halda að sú grein sé hvað sterkust og hjálpi hvað mest til þess að við getum unnið okkur út úr þeim vanda sem við eigum við að etja. Það skýtur því nokkuð skökku við þegar hæstv. iðnaðarráðherra kallar eftir því að menn standi saman og ekki sé verið að etja greinum saman þegar stjórnarstefnan bæði í orkumálum og í sjávarútvegsmálum liggur fyrir og gengur að mínu mati þvert gegn allri almennri skynsemi.

Það má hugsa sem svo, af því að stundum er kallað eftir því að allir leggist á árarnar og taki saman á þessu máli, að á þessu tólf manna fari, sem ríkisstjórnin er að öllu jöfnu hér á Íslandi, virðist sem menn rói hver í sína áttina. Í þessu máli sem snýr að Helguvík, þegar það snýr að þeim fjárfestingum sem þar hefur verið um að ræða er augljóst hver skoðun hæstv. umhverfisráðherra er og hefur hún komið mjög oft fram í opinberri umræðu. Það er ekki mikill stuðningur við verkefnið á þeim bænum.

Þegar hæstv. iðnaðarráðherra fullyrti í ræðu hér áðan að það að Orkuveita Reykjavíkur hafi fengið lán væri merki um að hlutirnir væru komnir í lag hér á Íslandi er þess skemmst að minnast hvernig hæstv. umhverfisráðherra talaði um akkúrat það fyrirtæki, Orkuveitu Reykjavíkur, að það væri svo komið að fótum fram að ekki væri með nokkrum hætti hægt að byggja nokkurn skapaðan hlut á því að það fyrirtæki gæti gert eitthvað vegna þess að það væri svo illa statt. Þótti mörgum sú árás hæstv. umhverfisráðherra vera nokkuð ómakleg.

Þarna er annað dæmi um að ráðherrar í ríkisstjórninni rói hver í sína áttina og það er alvarlegt. Við ræddum hér í dag og í gær mál sem kannski lætur ekki mikið yfir sér en skiptir þó máli, sem eru hugmyndir sem hér hafa verið lagðar fram um breytingar á kosningalögum. Meira að segja í því máli er það þannig að meðlimir ríkisstjórnarinnar róa hver í sína áttina. Það er alvarlegt mál. Þess vegna hljótum við núna þegar kemur að umræðum um Helguvík, um Straumsvík, hvernig við nýtum náttúruauðlindir okkar og hvernig við vinnum okkur út úr kreppunni, að gera þá lágmarkskröfu til ráðherra í ríkisstjórninni að þeir reyni nú að standa saman um einhverja eina stefnu. Það er jafnvel betra að þeir hafi ranga stefnu og standi saman um hana og hægt sé að tala um hana heldur en að þeir séu allir úti um hvippinn og hvappinn, að einn ráðherra hæstv. reyni að vinna gegn áformum annars hæstv. ráðherra.

Ég skal taka undir með öðrum þingmönnum um það að ágætt er að heyra hæstv. iðnaðarráðherra tala. Ég dreg ekki nokkra dul á það og er ekki í nokkrum vafa um að þar liggur góður vilji að baki til að ná árangri í þessum málum. Ég bendi líka á orð hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar, þingflokksformanns Samfylkingarinnar, og það er alveg augljóst, hlýði menn á þau orð sem hann hefur haft hér úr þessum ræðustól, að þar er mikill og ríkur vilji fyrir því að þessi verkefni nái fram að ganga og skilningur á mikilvægi þess fyrir íslenska þjóð á þeim tímum sem við nú lifum að þessi verkefni verði að veruleika.

Þess vegna er dapurlegt að annar stjórnarflokkurinn skuli aftur og aftur í gegnum stefnu sína reyna að bregða fæti fyrir þessi verkefni og tala þau niður með þeim hætti sem ég lýsti hér áðan hvað varðar hæstv. umhverfisráðherra, sem því miður er ekki hér í salnum til þess að taka þátt í þessari mikilvægu umræðu um mál sem hún hefur látið sig miklu varða og hefði verið bragur á ef viðkomandi ráðherra hæstv. hefði verið hér til að taka þátt í þessu.

Ég get líka tekið undir það með hv. þm. Birgi Ármannssyni að áhugavert væri að heyra frá hæstv. iðnaðarráðherra hvað það er sem ráðherrann hæstv. vill segja við fólkið sem er nú að safnast saman til að fara í göngu frá Keflavík til að berjast fyrir því að þessar framkvæmdir nái fram að ganga. Hvað er það sem gerir það að verkum að fólk á Suðurnesjum, þar sem atvinnuleysið er umtalsvert, hefur þessar áhyggjur og treystir svona illa ríkisstjórn Íslands?

Hæstv. forseti. Auðvitað eru augljósar ástæður, vegna þess að það er jú þannig að það er ekki hæstv. iðnaðarráðherra einn sem ræður í ríkisstjórninni, þar eru greinilega öfl að verki mun sterkari en það afl sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur. Ég vil hvetja hæstv. iðnaðarráðherra og heiti stuðningi við hana í því að berja þessi mál fram. Hæstv. ráðherra getur treyst því að hér í þingsal er meiri hluti fyrir því að þessi mál gangi fram af miklu meira afli heldur en raun ber vitni og verið hefur.

Það var meiri hluti hér í þingsalnum þrátt fyrir afstöðu Vinstri grænna til fjárfestingarsamningsins í Helguvík. Þannig fór það verkefni í gegnum þingið í góðri samvinnu annarra flokka og hæstv. ráðherra á bara að treysta því að hér í þinginu fái hún allan þann stuðning sem hún vill fá til þess að koma þessum málum í gegn. Ég hvet hæstv. ráðherra til að standa í lappirnar gegn þeim öflum í ríkisstjórninni sem róa í ranga átt. Það er svo mikið undir, það eru undir störf fyrir þúsundir Íslendinga. Það eru undir skatttekjur upp á fleiri, fleiri milljarða fyrir ríkissjóð Íslands sem við þurfum að fá inn. Allir þessir þættir eru undir. Það reynir núna auðvitað á hæstv. iðnaðarráðherra að sýna dug og keyra þetta mál áfram.

Þessi fjárfestingarsamningur og þær breytingar sem hér er verið að ræða eru skref í rétta átt. Nú þarf að fylgja þessu eftir af festu, frú forseti, þannig að við sjáum þessi verkefni verða að veruleika, sjáum þennan orkuskatt fara út í veður og vind, út í hafsauga, og sjáum öll þau áform sem uppi eru um skattlagningu á atvinnuvegina á Íslandi lögð á hilluna og menn fari þær leiðir sem okkur standa til boða til að fjárfesta og laga stöðu ríkissjóðs þannig að ekki komi til þess sem menn hafa áhyggjur af, að skattstofnarnir dragist hér saman vegna þess að menn eru að skatta sig beint niður á við, beint niður í aukna kreppu.

Ég vil enn á ný nota tíma minn hér til þess, frú forseti, minna þingmenn á þá umræðu sem ég hef vakið máls á áður og á sér stað núna í dönskum stjórnmálum og í danskri efnahagsumræðu þar sem menn hafa áhyggjur af því að vegna þess að danski ríkissjóðurinn er rekinn með halla og samdráttur er yfirvofandi í dönsku efnahagslífi að við þær aðstæður geti menn ekki og megi ekki reyna að leysa vandann með skattlagningu.

Ég veit að hér inni eru margir þingmenn sem hafa áhuga á því hvernig aðrar þjóðir haga sínum málum. Væri nú ekki skynsamlegt að líta til lands eins og Danmerkur um það hvernig Danir hyggjast leysa þessi mál og hvaða umræða er þar uppi. Þar hafa menn akkúrat velt því fyrir sér hvort ekki eigi t.d. að fara sömu leið og við sjálfstæðismenn höfum lagt til hér á Íslandi til að koma í veg fyrir það að menn hækki skatta á atvinnulífið og fólkið í landinu þegar síst má við, þegar er verið að draga saman opinber útgjöld og samdráttur er í efnahagslífinu almennt.

Við þær aðstæður, frú forseti, er auðvitað alveg skelfilegt hvernig ríkisstjórnin hefur látið það gerast æ ofan í æ að óvissa hefur verið búin til um fjárfestingar á Íslandi. Óvissa búin til með því að lýsa yfir, eins og gert var í fjárlagafrumvarpinu, gríðarlegri skattheimtu á alla orkuframleiðslu í landinu, sem menn hafa síðan verið að reyna að draga til baka og breyta. Það er búin til óvissa um sjávarútveginn með því að yfir greininni hangir þessi hótun sem felst í stjórnarsáttmálanum. Búin er til óvissa fyrir allan atvinnurekstur með því að sífellt er verið að tala um hækkandi skatta á allan atvinnurekstur í landinu. Þetta er vandamálið.

Ég skora á þingmenn Samfylkingarinnar og ég skora alveg sérstaklega á hæstv. iðnaðarráðherra að standa nú fast á þessum hlutum og koma í veg fyrir það að við förum þessa leið. Það er þingmeirihluti fyrir því að fara ekki þá leið sem mér sýnist Vinstri grænir því miður vera að reyna að þröngva þjóðinni til að fara.