138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

Íslandsstofa.

158. mál
[16:03]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Seinni liður andsvars míns snýst um það hvaða inntak verður í rauninni í þessari stefnu. Þetta er náttúrlega mjög mikilvægur málaflokkur. Hér er verið að búa til form eða umgjörð utan um þennan málaflokk sem heitir Íslandsstofa en oft blasa við pólitískar spurningar eins og t.d.: Hvernig á að markaðssetja Ísland? Hvaða atvinnuvegi á að laða til Íslands? Hvaða fjárfestingaraðila á að laða til Íslands? Oft virðist mér niðurstaðan af því vera frekar tilviljanakennd og jafnvel ekkert endilega í samræmi við helstu styrkleika sem við búum yfir. Mig langar til að spyrja hvernig hæstv. ráðherra sér fyrir sér að þessari stofu verði stjórnað. Sér hann t.d. fyrir sér að á þessum vettvangi verði hægt að ræða um einhvers konar landkynningaráætlun eða áætlun um það hvernig eigi að laða að erlenda fjárfesta eða eitthvað slíkt? Hvernig verður glímt við þessar pólitísku spurningar? Á hvaða vettvangi? Og hvaða leiðsögn fær stjórn þessarar stofu hvað þetta varðar?