138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[22:15]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Við tökum hér fyrir nefndarálit um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2009 frá meiri hluta fjárlaganefndar. Frumvarpið var lagt fram hér fyrir nokkru síðan og kemur fram í þeirri yfirferð að ólokið er ýmsu í tengslum við fjáraukalagafrumvarpið, þ.e. það á eftir að ganga frá yfirfærslu á fjárheimildum frá 2008–2009. En eins og fram hefur komið og var unnið að í skýrslu í júnímánuði sl. voru allar innstæður sem stofnanir áttu í lok árs 2008 frystar og ekki veittar heimildir til að færa þær yfir áramót. Við bíðum eftir því að fá tillögur um þessa yfirfærslu.

Þá var líka ákveðið í tengslum við aðhaldsaðgerðir á miðju ári að stofnanir gætu ekki reiknað með sérstökum fjáraukaupphæðum að þessu sinni, menn yrðu að aðlaga stofnanir sínar að þeim fjárheimildum sem fjárlög veita.

Komið hefur fram í yfirliti um framkvæmd fjárlaga fyrstu átta mánuðina frá Ríkisendurskoðun að það er nokkuð ljóst að einhverjar stofnanir munu lenda í vandræðum á árinu og er þá ástæða til að fara betur yfir það síðar. Fjárlaganefnd ritaði m.a. bréf til Ríkisendurskoðunar þar sem óskað var eftir frekari skýringum á þessari framkvæmd fjárlaga. Það svar hefur borist en hefur ekki unnist tími til þess að leggja það fyrir fjárlaganefnd. Það barst raunar til mín nú í dag.

Ég ætla að fara aðeins yfir álit meiri hluta fjárlaganefndar, nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar. Ég ætla að lesa innganginn, með leyfi forseta:

„Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar og í því skyni leitað skýringa hjá fjármálaráðuneyti og fagráðuneytum varðandi beiðnir um auknar fjárheimildir.

Meiri hlutinn hefur enn fremur farið yfir þau erindi sem hafa borist nefndinni og gerir 25 breytingartillögur við frumvarpið sem samtals nema 7,822 milljörðum kr. til lækkunar.

Meiri hlutinn gerir tillögur um hækkun tekna að fjárhæð 1,609 milljarðar kr. á rekstrargrunni.

Nefndin mun á milli 2. og 3. umræðu kalla eftir frekari upplýsingum um einstaka málaflokka, svo sem frekari upplýsingum um vaxtagjöld ríkissjóðs.

Einstakar tillögur eru skýrðar í álitinu auk þess sem fjallað verður nánar um þær í framsögu …“ sem hér fer fram.

Skýringar við einstakar breytingartillögur sem fluttar eru með frumvarpinu eru í fyrsta lagi: Æðsta stjórn ríkisins. Þar koma tillögur um framkvæmdir á Alþingisreit. Gert hafði verið ráð fyrir því í endurskoðun á fjárlögunum fyrir árið 2009 að lækka fjárveitingar til framkvæmda á Alþingisreit um 200 milljónir en nú er gerð tillaga um að þessi upphæð verði 150 millj kr., þ.e. dregið er aðeins úr niðurskurðinum. Er það samkvæmt tillögu frá forsætisnefnd Alþingis þar sem óskað er eftir fjárhæðum til þess að ljúka samningum í sambandi við fornleifauppgröft o.fl. sem tengist þessum framkvæmdum.

Annar liðurinn er Rannsókn á falli íslensku bankanna á árinu 2008. Það kom ósk um það frá rannsóknarnefnd Alþingis að veitt yrði 60 millj. kr. viðbótarframlag til nefndarinnar þar sem verkefnið hafði reynst umfangsmeira en áætlað hafði verið, bæði hvað varðar sjálfa rannsóknarnefndina og eins siðfræðihópinn sem starfar samhliða nefndinni. Eins og kunnugt er hefur rannsóknarnefndin óskað eftir því og fengið tíma fram til 1. febrúar til þess að ljúka sínum störfum. Það er tillaga meiri hluta fjárlaganefndar og í þeim breytingartillögum sem hér eru fluttar að veittar verði 60 millj. til rannsóknarnefndarinnar í viðbót við það sem áður hafði verið ákveðið.

Síðan er liður um fjárframlag til Ríkisendurskoðunar og er þar um að ræða 300 millj. kr. en það er upphæð sem fer út og inn, þ.e. það eru útgjöld og sértekjur því að þar er um að ræða endurskoðun á ársreikningum nýju bankanna. Eins og kunnugt er þarf að gera ráð fyrir slíkum fjárheimildum þótt ekki sé um viðbótaraukningu á útgjöldum að ræða.

Síðan kemur forsætisráðuneytið og eru nokkrir liðir í þessum breytingartillögum þar sem um er að ræða færslur á fjármagni vegna færslu á verkefnum á milli ráðuneyta. Úr forsætisráðuneytinu fara 4,5 milljónir vegna breytinga á verkefnum sem fara frá forsætisráðuneytinu yfir í nýja efnahags- og viðskiptaráðuneytið og sambærilegar færslur eru víðar í breytingartillögunum.

Hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu kemur fyrst Háskóli Íslands. Þar er um að ræða lágar upphæðir.

Síðan kemur framhaldsskólinn almennt þar sem óskað er eftir 150 millj. kr. framlagi. Lagt er fram í breytingartillögum frá meiri hlutanum 150 millj. kr. framlag vegna aukinnar sóknar í nám og fjölda nemenda í framhaldsskólum. Það kom í ljós að innritunin varð mun meiri en menn höfðu gert ráð fyrir og því er mætt að hluta með 150 millj. kr. framlagi til þess málaflokks.

Síðan eru ýmsar leiðréttingar. Menntaskóli Borgarfjarðar fær 20 millj. kr. framlag vegna húsnæðiskostnaðar. Það er bara í samræmi við samning sem gerður hafði verið en hafði ekki verið reiknaður rétt inn í fjárlögin.

Síðan eru nokkrir liðir en eins og menn muna kannski var afgreiðslan á fjárlögum mjög hröð í desember á síðasta ári. Hlutirnir gerðust þá hratt og kom í ljós að það voru nokkrir hlutir sem þá höfðu dottið út af borðinu, ef svo má segja, í afgreiðslu frumvarpsins. Það var leiðrétt með bréfi og samþykkt fjárlaganefndar í apríl, ef ég man rétt. Þar var ráðstöfun á fjárlagaliðum sem voru í raun í fjárlagafrumvarpinu sem var sundurliðuð á einstaka liði. Það er verið að staðfesta í tillögum meiri hlutans og í þeim breytingartillögum sem fylgja.

Það er í fyrsta lagi Fornleifavernd ríkisins. Þar var 1.3 millj. kr. framlag til fornleifarannsókna í Keldudal í Hegranesi. Það kemur fram í þessu bréfi.

Undir liðnum Söfn eru ýmis framlög. Átta millj. kr. framlag er til Síldarminjasafnsins, sem óvart hafði dottið út úr fjárlagaliðum, og síðan gerð er tillaga um 10 millj. kr. framlag til Safnahússins í Búðardal sem er líka samkvæmt samningi þar sem upphæðin hafði dottið út þrátt fyrir samninginn.

Það þarf heimildir fyrir því ef menn vilja breyta, t.d. ef þeir hafa fengið fjárveitingar, eins og Bátasafn Breiðafjarðar sem hafði fengið 2 millj. kr. styrk á fjárlögum til byggingar á sýningarskála. Það óskar eftir að því verði breytt til þess að nýta til endurbyggingar á bátum. Sú heimild er veitt. Í öllum þessum tilfellum er ekki um að ræða viðbótarútgjöld heldur er verið að færa til eða ráðstafa peningum samkvæmt þeim heimildum sem voru í fjárlögunum.

Sama gildir um Húsafriðunarnefnd. Þar er lítil upphæð, 1,5 millj. kr. styrkur sem veittur var í fjárlögum 2009 til endurbóta á gamla rafstöðvarhúsinu á Bíldudal, færð yfir í Smiðjuna á Bíldudal.

Síðan kemur Skriðuklaustur með 3,5 milljónir og svo eru ýmis stofnkostnaðarframlög. Ég ætla ekki að fara yfir þessi atriði í smáatriðum eða telja upp alla þá liði sem þar eru. (Gripið fram í: Sjóræningjarnir.)

Þar á meðal eru Sjóræningjarnir ehf. — af því að það var kallað hér upp — sem fá 2 millj. kr. framlag í þessum lið, það er merk stofnun á Patreksfirði.

Varðandi dómsmála- og mannréttindaráðuneytið er liður sem á við um aðalskrifstofuna. Þar eru millifærslur á milli ráðuneyta.

Síðan eru ýmis verkefni, þar á meðal Slysavarnafélagið Landsbjörg. Gerð er tillaga um 15 millj. kr. framlag til Slysavarnafélagsins og er lokauppgjör á samningi varðandi fjölgun björgunarskipa um land allt. Þar er um að ræða samning sem átti eftir að fullnusta.

Síðan koma liðirnir Kirkjumálasjóður, Jöfnunarsjóður sókna og Sóknargjöld. Ég ætla ekki að fara í allar þær tölur.

Það eru stórar tölur í heilbrigðisráðuneytinu vegna viðbúnaður vegna farsótta. Þar er 130 millj. kr. hækkun á fjárheimildum vegna viðbúnaðar gegn heimsfaraldri vegna svínainflúensu til viðbótar við áður ákveðnar 358,9 millj. kr. Þar er aðallega um að ræða viðbót, tvær lungnavélar til gjörgæslunnar og fleira sem er sundurliðað þar.

Þá er það Fjármálaráðuneytið. Þar eru millifærslur á milli stofnana vegna færslu á milli ráðuneyta og þarna er um 61,6 millj. kr. að ræða í heildina. Það eru í fyrsta lagi 4 millj. kr. vegna samningaviðræðna við þau ríki sem gáfu vilyrði um lánalínur til Íslands. Í öðru lagi eru 30 millj. kr. vegna samningaviðræðna, sérfræðiaðstoðar og kynningarmála vegna Icesave-skuldbindinganna. Í þriðja lagi eru 9 millj. kr. vegna samninga milli nýju og gömlu bankanna, um yfirfærslu eigna og uppgjörs þeirra á milli. Og í fjórða lagi eru 48 millj. kr. vegna ráðgjafar á sviði bankamála og eignaumsýslu. Samtals er því gert ráð fyrir auknum kostnaði á þessu ári að fjárhæð 152,6 millj. kr. en á móti koma minni lækkanir.

Svo kemur liðurinn Ýmislegt. Þar eru þjóðlendumál og er bætt við 13,4 millj. kr. vegna þess að þar voru mál í gangi sem talið var rétt að ljúka. En eins og kunnugt er var hægt á allri vinnu við þjóðlendumálin í svokölluðum bandormi fyrr á þessu ári og átti að sparast þar verulegur peningur, en þarna koma 13,4 millj. kr. til baka vegna þess að menn vilja ljúka þeim málum sem voru í fullum gangi.

Síðan eru ýmis verkefni undir liðnum Ýmislegt og undir fjármálaráðuneytinu. Þar er gerð tillaga um 120 millj. kr. fjárveitingu vegna fyrirgreiðslu til Kaupþings banka hf. vegna málshöfðunar bankans fyrir breskum dómstólum. Eins og hv. þingmenn muna voru samþykkt 20. desember 2008 lög nr. 172/2008, um heimild til fjárhagslegrar fyrirgreiðslu úr ríkissjóði, í tengslum við málshöfðun fyrir erlendum dómstólum vegna íþyngjandi stjórnvaldsákvarðana erlendra stjórnvalda á tímabilinu 1. október til 1. desember 2008. Það var vegna þess að gerð var skoðun á því hvort Kaupþing banki gæti farið í mál út af hryðjuverkalögunum. Þetta er hlutur ríkisins samkvæmt þessum lögum.

Svo kemur kafli frá iðnaðarráðuneytinu. Þar eru lagfæringar, niðurgreiðsla á húshitun, undir þeim lið er 23 millj. millifærsla vegna vanda Hitaveitu Öxarfjarðarhéraðs. Ef ég veit rétt yfirtóku menn þá hitaveitu. Síðan eru ýmis orkumál, það eru ýmis verkefni sem eru í rauninni færð út og inn í fjárlögunum.

Þá er það efnahags- og viðskiptaráðuneytið. Þar er aðalskrifstofan þar sem lögð er til 9,7 millj. kr. hækkun og jafnframt eru þar flutningar á milli ráðuneyta og fleiri smærri tölur af svipuðum toga.

Síðan kemur liðurinn Ýmis verkefni. Þar er Eftirlitsnefnd Félags fasteignasala en lögð er til 19 millj. kr. lækkun á framlagi til liðarins. Í lögum nr. 18/2009 er gert ráð fyrir að ekki verði innheimt eftirlitsgjöld á árinu 2009 til að standa straum af kostnaði við störf eftirlitsnefndar Félags fasteignasala, eins og gert er ráð fyrir í 19. gr. laga um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa, nr. 99/2004. Ástæðan er sú að nokkur sjóður hefur safnast upp þar sem gjaldið hefur skilað meiri tekjum en þörf var fyrir. Gert er ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af eftirlitsgjaldinu muni lækka um 19 millj. kr. á árinu 2009 og að fjárveiting lækki sem því nemur.

Lögð er til 7,7 millj. kr. hækkun hjá Hagstofu Íslands og er það aftur færsla á verkefnum á milli ráðuneyta og stofnana.

Síðan kemur liðurinn Vaxtagjöld ríkissjóðs þar sem lagt er til að fjárheimild vaxtagjalda verði lækkuð um 8,538 milljarða kr.

Ég ætla að lesa þann kafla því að þar er um að ræða verulega háa upphæð:

„Gert er ráð fyrir að fjárheimild gjaldfærðra vaxtagjalda lækki um rúma 8,5 milljarða kr. og að greiddir vextir lækki um 8,4 milljarða kr. frá því sem gert var ráð fyrir í frumvarpi til fjáraukalaga. Forsendur hafa breyst að því leyti að nú er gert ráð fyrir því að fjármögnun ríkisins á viðskiptabönkunum verði mun minni en áður var reiknað með þar sem Íslandsbanki verður að mjög litlu leyti í eigu ríkissjóðs eftir endurskipulagningu í kjölfar þess að kröfuhafar yfirtaka bankann að mestu. Í upphaflegum tillögum var gert ráð fyrir að vextir yrðu greiddir af 300 milljarða kr. skuldabréfaútgáfu til endurfjármögnunar á bönkunum en nú er miðað við að útgáfan verði um 250 milljarðar kr. Er þá reiknað með að kröfuhafar eignist 95% hlutafjár í Íslandsbanka jafnframt því að ríkissjóður veiti bankanum 25 milljarða kr. víkjandi lán til að styrkja eiginfjár- og lausafjárstöðu bankans. Vextirnir reiknast frá október 2008 þegar nýju bankarnir voru settir á fót. Verði einnig af því að kröfuhafar ákveði að eignast stóran meiri hluta í Nýja Kaupþingi minnkar þörf fyrir eiginfjárframlög enn frekar“ [en mér skilst að gengið hafi verið frá þessu í dag] „og má gera ráð fyrir að það gæti lækkað vaxtagjöld ársins 2009 um 6,7 milljarða kr. til viðbótar. Verði komin niðurstaða hvað það varðar áður en frumvarpið verður endanlega afgreitt á Alþingi kann því að verða tilefni til að lækka fjárheimild vegna vaxtagjalda sem því nemur.“

Eins og ég gat um í upphafi er hugmyndin að fara ítarlegar yfir vaxtagjöld ríkissjóðs og sundurliðanir á því og mun fjárlaganefnd gera þá tillögur í framhaldi af þeirri yfirferð. Raunar er þegar komin skýrsla frá fjármálaráðuneytinu sem þarf að leggja fyrir fjárlaganefnd og við þurfum að fara yfir þær tölur og fá ítarlegri upplýsingar.

Þetta eru að því leyti óvenjuleg fjáraukalög að ekki er hér löng upptalning á breytingum á fjárframlögum til einstakra stofnana en eins og mönnum er kunnugt hafa oft átt sér stað leiðréttingar eftir á sem nema milljörðum kr. fyrir einstakar stofnanir. Í þessu felst að sjálfsögðu sú áhætta að erfitt geti orðið fyrir stofnanir að standast fjárlög. En á það verður látið reyna þannig að menn beiti ýtrasta aðhaldi, enda ekki mikið svigrúm miðað við núverandi ástand að bæta í heldur þvert á móti verður allt gert til þess að reyna að draga úr útgjöldum til þess að við getum bætt skuldastöðu ríkissjóðs sem allra fyrst.

Með þessu nefndaráliti fylgja svo breytingartillögurnar frá meiri hluta fjárlaganefndar og er ekki ástæða til þess að fara frekar yfir þær en hér hefur verið gert.