138. löggjafarþing — 35. fundur,  1. des. 2009.

tekjuskattur o.fl.

226. mál
[00:01]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Virðulegi forseti. Frumvarp það sem ég mæli hér fyrir um breytingu á lögum nr. 90/2003 ásamt fleiri lögum hefur að meginmarkmiði að sameina skattstofur landsins og embætti ríkisskattstjóra þannig að landið verði að einu skattumdæmi.

Hinn 6. júlí sl. skipaði ég starfshóp sem fékk það meginhlutverk að gera tillögur um leiðir til að lækka kostnað við rekstur skattkerfisins. Frumvarp það sem ég mæli hér fyrir er samið í framhaldi af skýrslu starfshópsins.

Fram kom í nefndri skýrslu að kostir við núverandi fyrirkomulag, þar sem landið eru níu sjálfstæð skattumdæmi með níu skattstjórum, væru m.a. þeir að með landfræðilegri dreifingu skattstofa hafi myndast ákveðin nærþjónusta við lögaðila og einstaklinga. Auk þess skapi starfsemin störf á landsbyggðinni og mikla staðarþekkingu sem sé að finna á skattstofum. Ókostir við þetta fyrirkomulag væru hins vegar skortur á sérhæfingu, ójafnvægi í starfsmannafjölda miðað við skattgreiðendur, óhagkvæmar rekstrareiningar o.fl.

Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er gert ráð fyrir að samdráttur verði í fjárveitingum til umræddra stofnana skattkerfisins upp á 140 milljónir kr. og er það sambærileg aðhaldskrafa og gerð er á aðrar hliðstæðar stofnanir. Með breyttri verkaskiptingu, sameiningu skattstofa, sérhæfingu og fleiri ráðstöfunum er það hins vegar mat aðila að unnt sé að ná þessari lækkun útgjalda án þess að skilvirkni skattyfirvalda skerðist.

Við þessar breytingar hefur fjármálaráðuneytið lagt á það áherslu að gætt verði að störfum starfsmanna, einkum á landsbyggðinni. Vegna þessa hef ég beint til ríkisskattstjóra eftirfarandi tilmælum:

a) að komi til fækkunar starfa verði gætt jafnvægis milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar varðandi dreifingu starfa,

b) starfsemi á núverandi starfsstöðvum utan höfuðborgarsvæðisins verði fram haldið og þar m.a. litið til þess að hagnýta upplýsingatækni og fjarvinnslu,

c) allra leiða verði leitað á komandi missirum til að komast hjá einhliða uppsögnum.

Með þessu verði tryggt að störf á landsbyggðinni verði áfram til staðar þótt breytingar verði á starfsháttum og skipulagi einstakra eininga á landsbyggðinni.

Að svo mæltu, herra forseti, legg ég til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. efnahags- og skattanefndar.