138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

lyfjalög.

321. mál
[23:20]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála held ég öllu sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir sagði, ég tala nú ekki um þegar hv. þingmaður talaði um mig. Mér fannst það mjög gott. Þetta var grín, virðulegi forseti.

Hins vegar varðandi evrópska reglugerðarverkið höfum við bara þetta og við þurfum að vinna innan þess. (Gripið fram í.) Varðandi að það hafi verið túlkað þröngt, já, það er bara þannig. Við höfum verið sofandi á þessu sviði og í svo mörgu öðru. Ég er ekki að gagnrýna hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur, alls ekki, heldur vil ég bara reyna að læra af reynslunni. Ég hef séð þetta. Ég sá hvernig það var framkvæmt og ég sá að menn höfðu ekki hugsað fyrir hvernig þetta kæmi í framkvæmd á Íslandi. Eitt er að eiga við Evrópusambandið, annað er að eiga við kerfið hér innan lands, (VBj: Það er erfiðara.) því að þar er svo sannarlega, virðulegur forseti, mikið af þröskuldum svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Af hvaða ástæðum veit ég ekki en það er ótrúlegt að sjá á ýmsum stöðum í kerfinu hvað menn eru tilbúnir til þess að túlka þessa hluti gríðarlega þröngt.

Ég er sammála hv. þingmanni um að þetta er verkefnið, það er svo sannarlega hægt að gera betur og við eigum að gera betur. Ég lít svo á að það sé sameiginlegt verkefni okkar þingmanna og kannski sérstaklega okkar hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur og okkar í heilbrigðisnefndinni. Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir hefur mjög sterkar og að mínu áliti góðar skoðanir hvað þetta varðar og hefur flutt málefnaleg rök fyrir því að við þurfum að gera betur á þessu sviði. Ég hvet hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur til dáða og lofa henni (Forseti hringir.) mínum stuðningi hvað það varðar.