138. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2009.

fjármálafyrirtæki.

258. mál
[00:15]
Horfa

Frsm. viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum.

Með frumvarpinu er lögð til breyting á XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki um endurskipulagningu fjárhags, slit og samruna fjármálafyrirtækja. Með frumvarpinu er lögð til viðbót við 4. mgr. 103. gr. í þá veru að frestur til að höfða riftunarmál skuli vera 24 mánuðir í stað sex mánaða. Er um að ræða viðbót við þær sérreglur sem þegar gilda um fjármálafyrirtæki skv. XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki en á ekki við um gjaldþrotaskiptalögin.

Heimildir laga um riftun gerninga hafa það að markmiði að gæta jafnræðis kröfuhafa, þ.e. að einstakir kröfuhafar séu ekki betur settir en aðrir vegna ráðstafana fjármálafyrirtækis áður en slitameðferð hefst. Ljóst er að sá frestur sem kveðið er á um í gjaldþrotalögunum er afar stuttur miðað við umfang margra þeirra fjármálafyrirtækja sem eru nú í slitameðferð. Verði frumvarpið óbreytt að lögum gæti það lengt tímann sem slitameðferð tekur, en jafnframt gefst rýmri tími til að vinda ofan af þeim gerningum sem kunna að hafa verið gerðir í aðdraganda falls fjármálafyrirtækjanna. Slíkir gerningar gætu í einhverjum tilvikum farið gegn hagsmunum almennra kröfuhafa.

Við afgreiðslu málsins í viðskiptanefnd voru fjarverandi Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Eygló Harðardóttir og Ragnheiður E. Árnadóttir.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálitið rita sú sem hér stendur, Magnús Orri Schram, Guðlaugur Þór Þórðarson, Arndís Soffía Sigurðardóttir, Valgerður Bjarnadóttir og Margrét Tryggvadóttir.