138. löggjafarþing — 49. fundur,  17. des. 2009.

tekjuskattur.

81. mál
[11:38]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér mikilvægt framfaraskref sem er frumvarp hæstv. fjármálaráðherra um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Frumvarp þetta er mikilvægt núna á tímum endurreisnar íslensks atvinnulífs, endurreisnar sem mun byggja í meira mæli en áður á bæði mannauði og hugviti. Slík endurreisn mun hafa traustan grunn þar sem útgjöld til rannsókna og þróunar á Íslandi hafa aukist á undanförnum árum og nú er þetta hlutfall útgjalda til ROÞ, eins og það er kallað, komið yfir 2,5% af vergri landsframleiðslu. Með því hlutfalli erum við farin að skipa okkur í röð með löndunum í kringum okkur eins og Norðurlöndunum ásamt Japan, Kóreu og Bandaríkjunum.

Þegar þessi útgjöld til ROÞ eru brotin niður eftir fjármögnunaraðilum kemur í ljós að helmingur útgjaldanna er hjá fyrirtækjum eða í einkageiranum. Þessu var ekki þannig farið fyrir nokkrum árum, þá fór rannsóknar- og þróunarstarfsemi fyrst og fremst fram innan veggja háskólanna og rannsóknarstofnana sem fjármagnaðar eru af ríkinu en á undanförnum árum hafa orðið til hér rannsóknar- og þróunarfyrirtæki á sviði matvælaframleiðslutækni og lyfjaframleiðslu og stóran hluta þessara útgjalda má rekja til fárra en jafnframt mjög stórra fyrirtækja.

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem hér er til umræðu mun gagnast fyrst og fremst þeim aðilum sem hafa þegar hafið rannsóknar- og þróunarstarfsemi en vantar aukinn stuðning við að efla þá starfsemi. Í starfi sínu við að endurbæta frumvörp hæstv. fjármálaráðherra ákvað nefndin að aðlaga frumvarpið að óskum hagsmunaaðila sem þetta frumvarp snertir og lækka það hámark sem nýsköpunarfyrirtæki þurfa að hafa varið í rannsóknar- og þróunarstarfsemi til þess að geta nýtt sér þann skattfrádrátt sem frumvarpið leyfir, þ.e. gera ekki lengur kröfu um að þessi fyrirtæki verji a.m.k. 20 milljónum í rannsóknar- og þróunarstarfsemi heldur 5 milljónum. Það tel ég mjög jákvætt skref til að tryggja það að við séum ekki einungis að styðja við miðlungsstór og stór fyrirtæki á þessu sviði.

Þar sem gleymdist áðan að geta þess hverjir standa að nefndarálitinu með frumvarpinu, þ.e. því nefndaráliti sem meiri hluti efnahags- og skattanefndar afgreiddi inn í þingið, ætla ég að lesa upp nöfn þeirra. Það eru Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og skattanefndar, sú sem hér stendur, Magnús Orri Schram, Ögmundur Jónasson og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir. Það ætti því að vera orðið ljóst að ég stend að þessu nefndaráliti meiri hluta efnahags- og skattanefndar.

Ég vil kannski aðeins svara þeirri gagnrýni sem hefur komið fram frá minni hluta efnahags- og skattanefndar um að hér sé í stórum dráttum verið að stíga mjög stutt skref í því að styðja við nýsköpunarfyrirtæki, ekki síst hvað varðar leið hámarksupphæða á skattafslætti vegna hlutafjárkaupa í nýsköpunarfyrirtækjum. Ástæða þess að meiri hlutinn telur að ekki eigi að hækka þá hámarksupphæð sem nota má til skattafsláttar er sú að hér er um sértækan stuðning við fyrirtæki að ræða og stuðningur ríkisvaldsins við fyrirtæki í ákveðnum geirum þarf að fá staðfestingu frá Eftirlitsstofnun EFTA. Þetta frumvarp mun því ekki koma til framkvæmda fyrr en Eftirlitsstofnun EFTA er búin að samþykkja að það feli í sér lögmæta ríkisaðstoð. Þessi staðreynd hefur að sjálfsögðu mótað þær tillögur sem koma bæði fram í frumvarpinu og nefndarálitinu að því leytinu til að það var ákveðið að stíga varlega til jarðar og að endurskoða frekar lögin eftir að reynsla er komin á þau ákvæði sem þau veita bæði fyrirtækjum og einstaklingum hvað það varðar að minnka skattbyrði sína.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum segja að ég lít svo á að þetta frumvarp sé mjög mikilvægt skref í því að örva verðmætasköpun í landi sem þarf í miklum mæli að búa til verðmæti til þess að borga af skuldum sem urðu hér til á útrásartímabilinu og ekki hefur verið hægt að afskrifa þar sem okkur ber að borga ákveðinn hluta þeirra þó svo að mikið af skuldum einkageirans hafi nú þegar verið afskrifað. Þessar skuldir munu þýða mikla skuldabyrði fyrir almenning hér á landi og þó nokkra fækkun starfa í þeim fyrirtækjum sem eru með starfsemi eins og t.d. í bankageiranum. Það er einnig ljóst að það verður ekki mikill vöxtur á næstu árum í hefðbundnum atvinnugreinum, þannig að við þurfum að byggja á meiri nýsköpun og nýrri atvinnustarfsemi til að standa undir þessari skuldabyrði. Frumvarp sem þetta, sem hefur það að markmiði að örva nýsköpunarfyrirtæki, er líka mikilvægt merki til ungs fólks sem sér kannski ekki marga atvinnumöguleika í augsýn vegna þess að búið er að stoppa allar nýráðningar hjá ríkinu og í mörgum hefðbundnum atvinnugreinum. Ég er þeirrar skoðunar að þetta frumvarp muni verða til þess að fleira ungt fólk setji á fót fyrirtæki í kringum sitt áhugasvið sem oftar en ekki er á sviði hugbúnaðar og reyni fyrir sér í þróunar- og rannsóknarstarfsemi á hugbúnaði.

Þess má að lokum geta að slík starfsemi er afar arðbær fyrir skuldsett efnahagslíf eins og það íslenska vegna þess að starfsemin felst ekki í því að flytja inn vörur til að nota í framleiðsluna heldur fyrst og fremst að nýta hugvit íslenskra athafnamanna og vonandi að flytja það hugvit út.