138. löggjafarþing — 49. fundur,  17. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[16:01]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mikill ágreiningur er um það mál sem við erum að fara að ræða hér og greiða atkvæði um. Ég vil leyfa mér að lesa upp og vitna í bókun ASÍ sem kom m.a. á fund nefndarinnar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Það hefur tíðkast um langt árabil, óháð skipan ríkisstjórna eða hvaða ráðherrar hafa farið með málefni vinnumarkaðarins, að leitað hefur verið eftir samráði við Alþýðusambandið og aðra aðila vinnumarkaðarins um mál er varða sérstaklega réttindi launafólks og velferðarkerfið á vinnumarkaði. Jafnframt hafa allir aðilar er málið varðar leitast við að ná sameiginlegri niðurstöðu sem sátt hefur verið um. Má segja að hér hafi verið farin sú leið sem norræna módelið býður upp á.“

Út frá þessu var brugðið núna, virðulegi forseti, af hálfu vinstri stjórnarinnar. Hér var brotið í blað í samskiptum ríkisstjórnar og launþegasamtaka í landinu og þeirra hagsmunasamtaka sem að málinu koma eins og Öryrkjabandalagsins, Félags eldri borgara og fleiri aðila. Við þessi vinnubrögð verður ekki unað, virðulegi forseti, og því segi ég nei.