138. löggjafarþing — 50. fundur,  18. des. 2009.

verðbréfasjóðir, fjárfestingarsjóðir og fagfjárfestasjóðir.

259. mál
[11:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Það er dálítið slæmt að ræða svona mál á miklum hlaupum og ég geri mér grein fyrir að mikil tímapressa er á því að klára þessa umræðu. Þetta er afskaplega stórt mál og kemur inn á mjög margt sem hugsanlega hefur haft áhrif og valdið hruninu, þá á ég við framvirka samninga, áhættudreifingu, áhættumat og annað slíkt sem er mjög mikilvægt að liggi fyrir. Ég ætla ekki að fara mjög djúpt í þetta, ég geri ráð fyrir að málið fari til nefndar og verði unnið þar skikkanlega og þá með meiri tíma og menn kalli til sérfræðinga til að fara í gegnum þessi mál.

Ég vil undirstrika að hluti af eða ein af fjöldamörgum ástæðum hrunsins var einmitt sú að menn gættu ekki að áhættustýringu og áhættugreiningu í starfi þessara sjóða og alveg sérstaklega hvernig áhættan var orðin samtengd í gegnum krosseignarhald, raðeignarhald og lán fyrirtækja og fjármálastofnana til stærstu eigenda sinna.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta en skora á hv. nefnd að vinna málið mjög vandlega.