138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[14:54]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að gera þá játningu að ég er fyrir löngu búinn að gefast upp á því að reyna að ræða við meiri hlutann á Alþingi um afskriftir höfuðstóls lána heimilanna, löngu búinn að því. Vegna þess að hv. þingmenn virðast einfaldlega ekki skilja um hvað málið snýst, fyrir utan hv. þm. Lilju Mósesdóttur, sem ég býð spenntur eftir að komi upp í andsvar við mig vegna þess að ég beindi mörgum spurningum til hv. þingmanns. En mér þykir miður að fulltrúi Samfylkingarinnar skuli í umræðunni — um leið og verið er að stórhækka gjöld er snerta dómstólana sem vissulega munu skila miklum tekjum inn í ríkissjóð og það er vel — útiloka það að aukin framlög verði til gjafsóknar. Þetta er ekki í anda jafnaðarstefnunnar, það er alveg á hreinu og það er miður að heyra fulltrúa jafnaðarmannaflokks Íslands útiloka það vegna þess að um réttlætismál er að ræða.