138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[15:08]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég geri ekki svo miklar kröfur til Framsóknarflokksins að ég ætlist til þess að hann sé sammála sjálfstæðismönnum í einu og öllu, svo það sé bara sagt hér og hv. þingmaður viti það.

Nú er það svo að við blasa miklar skattahækkanir. Á sama tíma er verið að afgreiða í gegnum þingið fjárlög þar sem ég hefði ætlað að sjá mætti umtalsverðan niðurskurð í rekstri ríkisins vegna þess að hann verður að koma til og hann mun á endanum koma til. Það er öllum ljóst sem reyna að horfa á hlutina í einhverju samhengi, nema kannski helst ríkisstjórnarflokkunum þar sem eins og hv. þingmaður benti svo réttilega á áðan sitja englar lýðveldisins, sjálf Samfylkingin, og hins vegar Vinstri grænir sem hafa snúið frá öllum sínum fyrri stefnumálum og eru því oft kallaðir umskiptingar hér í ræðustól. Hér ríkir ríkisstjórn engla og umskiptinga sem hefur bara þá stefnu að hækka skatta og það á að koma okkur út úr efnahagslægðinni.