138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[15:34]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni kærlega fyrir hans svar. Það hefði einmitt verið mjög áhugavert fyrir hv. þingmann að sitja fund viðskiptanefndar, þar sem hann er fulltrúi, núna í morgun þar sem sérstaklega var farið í gegnum verðtrygginguna og leiðir til þess að klippa á þessa víxlverkun. Í ljósi þess að þingmaðurinn sat ekki fundinn hefði ég áhuga á því að fá skýrt svar frá þingmanninum um hvort hann sé tilbúinn til þess að vinna að því að afnema verðtrygginguna. Ég vonast eftir að fá mjög skýrt já- eða nei-svar frá hv. þingmanni.