138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[16:59]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að nota andsvar mitt til að reifa nánar tillögur okkar sjálfstæðismanna eða þau sjónarmið sem ég tel að hafi nú þegar komið ágætlega fram í framsögum þingmanna Sjálfstæðisflokksins, heldur vísa aðeins til dæmisins sem hv. þingmaður tók af sjálfum sér um það að með því að honum voru sköpuð skilyrði og svigrúm til að losa um sparnað, gat hann ráðist í fjárfestingu sem eykur umsvifin í hagkerfinu. Það er í raun og veru einmitt þetta sem málflutningur okkar sjálfstæðismanna gengur út á. Einkaneysla hefur dregist saman um 30% frá árinu 2007 þegar hún náði hámarki og frá sama tíma hafa fjárfestingar einkaaðila dregist saman um 60%. Það er þetta ástand sem við erum að vísa til. Þegar hv. þingmaður kemur svo hingað upp og lýsir því úr eigin lífi hvernig aukið svigrúm hans til að nota sparnað og það fjármagn sem hann hefur yfir að ráða nýtist til að kveikja líf í hagkerfinu, er hann akkúrat að tala um kjarnann í málflutningi okkar í skattamálum. Við getum ekki komið með viðbótarálögur, hvorki af þeim toga sem er að finna í þessu frumvarpi né í hinum skattapakkanum sem ríkisstjórnin er að kynna og vill lögleiða. Við erum með valkost sem gengur út á það að á meðan erfiðasti tíminn gengur yfir hlífum við heimilum og atvinnustarfsemi til að komast upp úr þessum öldudal. Það getum við gert með því að örva skattstofnana og tekjur ríkisins vegna þeirra munu taka við sér smátt og smátt, og innan tíðar mun verða allt öðruvísi umhorfs í ríkisbúskapnum ef við bara gefum þessum skattstofnum tækifæri til að taka við sér.