138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[17:21]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við göngum nú til atkvæðagreiðslu um virðisaukaskattsfrumvarpið og gjaldafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Hún hefur kynnt okkur að hún vilji einkum líta til Norðurlandanna í sinni skattaframkvæmd. Við vitum sem er að þar er skattbyrðin sú hæsta í heiminum þannig að það boðar ekki gott. Nú erum við að fara að innleiða hugmyndir um að feta okkur inn á þá braut og við sjáum afrakstur þess í því máli sem við göngum nú til atkvæðagreiðslu um. Ísland er með hæsta virðisaukaskatt í heimi. Það er afleiðingin af því og það er sú braut sem ríkisstjórnin markar í sinni skattaframkvæmd.