138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[10:08]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur andsvarið. Það er rétt að það er talað um að þingmannanefndin geti kallað til sín sérfræðinga, en það er ekkert sem segir að henni sé skylt að gera það og það er ekkert sem segir að hún skuli þiggja ábendingar utan þingsins hvað varðar störf nefndarinnar. Ég hefði einfaldlega talið heppilegra að það væri tekið fram.

Hvað varðar tímarammann um skil nefndarinnar er skýrt tekið fram að hún hafi til 30. september, þ.e. til loka þingsins, til að skila af sér þó að hún megi vissulega gera það fyrr. Eins og kom fram í máli mínu tel ég mjög nauðsynlegt að þingmannanefndin skili af sér sem fyrst. Þetta er það mikilvægt mál að þeir sem starfa í þessari nefnd, eins og ég sagði, geta ekki gert neitt annað fyrstu vikurnar eftir að rannsóknarskýrslan kemur út en að lúslesa þá skýrslu og fara yfir alla þætti hennar og fá jafnvel heimild til að kalla inn varamenn á meðan. Þetta er einfaldlega það mikilvægt mál og ég held að það hefði verið betur leyst með þeirri aðferð.

Hvað varðar gagnagrunnana er alveg dagljóst að þeir eru fullir af persónuupplýsingum og það er nánast ómögulegt, eins og fram kom í máli þjóðskjalavarðar, að gera þá ópersónugreinanlega. Hér er tekið fram að þeir sem vilja fá aðgang að þeim grunnum skuli greiða kostnað af því aðgengi sjálfir. Fræðimenn og almenningur hafa einfaldlega ekki nokkur tök á því að standa undir svoleiðis kostnaði og það er einboðið miðað við allar þær upplýsingar sem hér liggja frammi og hafa komið fram að gögnin munu verða óaðgengileg af tæknilegum ástæðum. Og það er mjög vont.