138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[10:21]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér þykir leitt að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir misskilji svona rækilega breytingartillögur Hreyfingarinnar. Þær eru mjög læsilegar, einfaldar og skýrar og þær gera einfaldlega ráð fyrir að betur verði vandað til verka varðandi skýrslu rannsóknarnefndarinnar en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Það er ekkert öðruvísi, hér er ekki verið að tala neitt niður til þingsins, það er lagt til að þingið komist betur frá þessu máli en ella. Það er virðingarvert framtak af hálfu Hreyfingarinnar að leggja það til. Það voru ekki við sem sömdum upprunalega frumvarpið, við höfum lagt til að það yrði reynt að laga það á öllum stigum málsins en því hefur verið hafnað.

Við gerum þetta einmitt sérstaklega til að reyna að efla og styrkja virðingu og stöðu Alþingis á Íslandi, en ekki hitt. Það er það sem vakir fyrir okkur. Við komum sem utanaðkomandi fólk inn í heim þar sem fólk hefur setið á þingi árum og áratugum saman, sama fólk og hefur sett alla þá löggjöf sem leiddi til þess að hér hrundi allt til fjandans. Þetta sama fólk á nú að fara að rannsaka sjálft sig. Okkur finnst það einfaldlega ótrúverðugt, því miður er það bara þannig. Þess vegna höfum við reynt að bæta úr.

Við erum ekki hér að neinu marki að tala niður til þingsins eða neitt þannig heldur erum við, eins og ég segi, að reyna að bæta úr því. Ég skora á hv. þingmann að lúslesa breytingartillögur okkar og ef hún vill halda ræðu um þær á eftir er það bara fínt mál. Þá svörum við því.