138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[10:52]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa gert grein fyrir því frumvarpi sem nú hefur verið lagt fyrir þingið eftir synjun forseta Íslands á því að staðfesta lög sem afgreidd voru frá Alþingi í lok síðasta árs. Ég hygg að ekki verði mikill ágreiningur um efnisatriði þessa máls. Það mun að sjálfsögðu ganga til nefndar í dag og fá þar sína umfjöllun, en að uppistöðu til er um að ræða umgjörð og ramma fyrir framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem ég hygg að ekki þurfi að vera mikill ágreiningur um í þinginu.

Mig langar við þetta tækifæri til að rifja aðeins upp úr umræðunni frá því í vetur hvað sagt var um það hvað mundi gerast ef frumvarp ríkisstjórnarinnar yrði samþykkt óbreytt. Þannig var að 3. minni hluti fjárlaganefndar skilaði af sér nefndaráliti þann 19. nóvember og þar segir skýrum stöfum, með leyfi forseta:

„Verði frumvarpið samþykkt óbreytt sem lög frá Alþingi, eins og meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að gert verði, telur 3. minni hluti einsýnt að forseti lýðveldisins muni, í ljósi fyrri yfirlýsingar, synja lögunum staðfestingar, með vísan til hennar og 26. gr. stjórnarskrárinnar.“

Þetta mátti mönnum vera ljóst að mundi gerast og var vakin athygli á, alveg sérstaklega af fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd við meðferð málsins í vetur. Það sætir því mikilli furðu að það skuli hafa komið mönnum í jafnopna skjöldu og raun ber vitni, sérstaklega ríkisstjórninni, sem gerðist síðan í kjölfarið.

Það er erfitt að ræða um þetta frumvarp þó að það fjalli fyrst og fremst um formleg atriði og það sem lýtur að framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar án þess að setja hlutina í heildarsamhengi, ræða aðeins um samningana sjálfa sem bera á undir þjóðina, fjalla um meðferð þingsins á því, viðbrögð ríkisstjórnarinnar og það hvað við í stjórnarandstöðu höfum sagt í kjölfar synjunarinnar.

Og hvað höfum við sagt? Við höfum sagt að þetta gefi okkur nýtt tækifæri. Þetta gefur okkur tækifæri í fyrsta lagi til að koma málstað okkar skýrar á framfæri og ég verð að segja að mér finnst sem ríkisstjórnin hafi ekki nýtt tækifærið á nokkurn hátt, tækifærið til að segja skýrum orðum það sem sagði í frumvarpi ríkisstjórnarinnar sjálfrar, að við Íslendingar teljum okkur ekki hafa lagalega skuldbindingu til að undirgangast þessar kröfur. Hafa menn gert það? Ég hef ekki orðið var við það. (ÁÞS: Margsinnis.) Ég hef ekki orðið var við að menn hafi nýtt tækifærið núna í þeirri miklu athygli sem landið hefur fengið til að koma þessu skýrt á framfæri. Þvert á móti hefur áherslan fyrst og fremst verið lögð á það sem gæti reynst okkur Íslendingum erfitt vegna þessarar ákvörðunar forseta Íslands.

Við í stjórnarandstöðunni höfum sagt: Þetta er líka tækifæri fyrir okkur heima fyrir til að ná víðtækari sátt um meðferð þessa máls vegna þess að málsmeðferð ríkisstjórnarinnar fram til þessa hefur verið fallin til þess að ala á sundrungu. Við sjáum líka sundrunguna í þessu máli. Allar kannanir sem gerðar hafa verið mæla að þjóðin er klofin í herðar niður um það hvernig eigi að leysa málið. Annars vegar eru þeir sem segja: Einhvern botn verður að fá í þetta mál og halda áfram með lausn annarra viðfangsefna, og hins vegar þeir sem segja: Það skiptir ekki máli með önnur viðfangsefni því að þetta eitt og sér er svo stórt að við megum ekki láta þvinga okkur til niðurstöðu í því.

Ég hef skipað mér í þann hópinn, ég hef skipað mér í hóp þeirra sem segja: Látum ekki þvinga okkur til niðurstöðu í þessu máli sem við erum ósátt við, sem skilur eftir óbragð í munninum á okkur vegna þess að lagalega staðan er okkar megin. Því hefur aldrei verið andmælt á þinginu. Við segjum þess vegna við þessar aðstæður: Náum samstöðu á þinginu sem mun skila sér í meiri sátt úti í þjóðfélaginu í þessu máli skulum við hafa eitt á hreinu, sú samstaða hlýtur að snúast um það að standa gegn þvingunum og afarkostum. Hún snýst ekki um einhverjar málamyndabreytingar á því samkomulagi sem gert hefur verið. Það er alveg skýrt. En vilji ríkisstjórnin slá á þessa útréttu hönd stjórnarandstöðunnar, fara í spunaleik, segja sem svo að þeir sem nú vilji efna til samráðs séu að hverfa frá fyrri yfirlýsingum um að betra sé að fara með málið fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu, þá gott og vel, við skulum leggja þær hugmyndir strax til hliðar. Þá skulum við taka þá ákvörðun núna strax að ekki standi til að eiga neitt samtal. Það stendur ekki til að hafa neitt samráð. Fáum það skýrt frá ríkisstjórninni því að það sem við höfum sagt okkar megin frá hefur verið alveg skýrt, en er mjög loðið frá ríkisstjórninni. Reyndar hefur hæstv. utanríkisráðherra tjáð sig um málið og sagt sem svo: Ja, nú er það stjórnarandstaðan sem vill ekki fara í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það stendur aldeilis ekki á okkur að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu með þetta mál. (Utanrrh.: Þá gerum við það.) [Kliður í þingsal.] Þá gerum við það, heyrist úr þingsal, gott og vel, þá gerum við það og ég get sagt hv. þingmönnum eitt: Þjóðin mun greiða atkvæði með hagsmunum sínum í þessu máli. Það eitt er víst. Og hagsmunir íslensku þjóðarinnar munu aldrei liggja í því að gefa eftir undan pólitískum þvingunum og afarkostum, að skrifa upp á skuldbindingar sem við Íslendingar höfum aldrei undirgengist og teljum sjálfir í skriflegum lagatexta að okkur beri ekki að undirgangast. Það er alveg öruggt að þannig mun það mál fara. Og ef ríkisstjórnin hefur ekki dug í sér til að koma þeim skilaboðum til annarra þjóða að við ætlum ekki að láta beygja okkur undir vilja þeirra án dóms og laga verður það einfaldlega íslensku þjóðarinnar að koma þeim skilaboðum út. Þá verður það á endanum verk íslensku þjóðarinnar og það mun örugglega ekki standa á henni að taka þann kaleik frá ríkisstjórninni hafi hún ekki vilja og dug í sér til að koma þeim skilaboðum frá sér.

En það er dapurlegt að ríkisstjórnin beygi sig undir þennan vilja, hafni samstöðunni sem hún getur fengið á þinginu og meðal þjóðarinnar til að standa gegn svona kúgun eins og birtist í framgöngu þeirra ríkja sem harðast sækja fram í málinu.

Takið eftir einu, hvað segja hinir háu herrar í útlöndum vegna viðbragða forsetans? Tala þeir um að vegna þeirrar stöðu sem upp er komin sé nauðsynlegt að fara með íslensku þjóðina fyrir dómstóla? Að stefna eigi íslenska ríkinu til að það standi við skuldbindingar sínar? Hefur verið minnst á dómstóla af þessu fólki? Ekki einu orði.

Hefur verið minnst á það að grípa til ráðstafana á vettvangi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins? Svo sannarlega. Svo sannarlega hefur það verið gert.

Hefur verið minnst á að nú verði umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu tekin og sett í frystinn? Svo sannarlega hefur það verið gert.

Hefur verið minnst á að fjármögnun erlendis frá muni reynast okkur Íslendingum erfið í kjölfarið á þessu? Hefur verið rætt um að við föllum niður í ruslflokk hjá matsfyrirtækjum? Allt hefur þetta verið nefnt.

En að fara með málið fyrir dómstóla, að láta reyna á réttarstöðuna kemur þessu fólki ekki til hugar. Hvers vegna skyldi það vera? Hvers vegna í ósköpunum skyldu menn forðast að fara með málið fyrir hlutlausa dómstóla? Er það ósanngjörn krafa af okkar hálfu? Er það þannig á þessu þingi að við ætlum að vera ósammála um jafnsjálfsagðan hlut og þann að láta reyna á réttarstöðuna? Ég segi: Í lögunum eins og þau liggja fyrir þinginu hefur verið viðleitni til að fá skorið úr um skuldbindingarnar. Það er viðleitni en hún er of veik, því miður. Úrræðin eru of veik til að nýtast okkur í framtíðinni og það gagnast okkur ekki að halda til haga okkar lagalega rétti í málinu ef við eigum enga von um að fá reynt á hann í framtíðinni. Því miður er það þannig.

Skilaboð mín á þessari stundu eru afskaplega einföld: Ég er á móti lögunum, ég er á móti þeim samningi, eins og ég hef alltaf verið og við í Sjálfstæðisflokknum, sem gerður hefur verið undir þvingunum og birtist í þeim lögum sem forsetinn hefur núna ekki samþykkt, á móti þeim samningi er ég. (Gripið fram í: Þú greiddir ekki atkvæði …) Ég tel skynsamlegt af ríkisstjórninni að láta reyna á upptöku samninganna, ekki til að gera einhverjar málamyndabreytingar á þeim heldur til að láta reyna á raunverulegan vilja viðsemjenda okkar til að koma fram af sanngirni í þessu máli og það er eini staðurinn þar sem enn skortir á sanngirnina, hjá viðsemjendum okkar. Sanngirnin hefur öll verið okkar megin. Við höfum boðið samninga, við höfum boðið ríkisábyrgð, við höfum gengið miklu lengra en hægt er að ætlast til af okkur og við höfum gengið lengra í þessu máli en við erum meira að segja sátt við. Enginn í þessum sal er sáttur við þá niðurstöðu sem fengist hefur. En þeir eru margir til sem segja: Við eigum enga aðra kosti.

Við höfum núna í hendi okkar tækifærið til að standa saman og þá skulum við koma auga á eitt: Hagsmunirnir sem tekist er á um í þessu máli eru annars vegar hagsmunir þeirra sem sækja fram — og þeir eru Hollendingar og Bretar — og hins vegar íslenskir hagsmunir. Látum það ekki aftur gerast á árinu 2010 sem var einkennandi fyrir árið 2009, að við getum ekki staðið saman um íslenska hagsmuni.

Leggjum niður umræðuna um það hvernig við komumst á þennan stað. Hefjum umræðuna um það hvernig við getum leyst úr þessari stöðu. Þeir brosa hér, sumir hv. þingmenn stjórnarliðsins, vegna þess að þeir skemmta sér best í umræðunni við að tala um einkavæðingu bankanna og þá vegferð sem leiddi okkur til þessarar stöðu. Ég er með mínar skoðanir á því. Ég tel að stjórnvöld hafi svo sem gert mistök en meginábyrgðin liggur að sjálfsögðu hjá þeim sem áttu og ráku íslensku bankana. (Gripið fram í: Og Sjálfstæðisflokknum.) Meginábyrgðin liggur hjá eigendum og stjórnendum bankanna á Íslandi sem tóku allar þær ákvarðanir sem leiddu okkur til þessarar niðurstöðu. (Gripið fram í: Og Sjálfstæðisflokknum.) Þar liggur meginábyrgðin. (Gripið fram í: Og Sjálfstæðisflokknum.) (Gripið fram í.) Vilji menn nota dýrmætan tíma okkar á þinginu til að eiga umræðu um aðdraganda þessa máls en ekki leiðir til að leysa það óska ég þeim bara góðrar skemmtunar. Við munum ekki eiga orðastað við þá sem ætla að eyða dýrmætum tíma þingsins til þess. [Kliður í þingsal.] Nú er tími til að standa saman. Við höfum tækifæri núna til að efla samstöðu, bæði á þinginu og meðal þjóðarinnar, og samstaðan hlýtur að snúast aðeins um eitt: Stöndum gegn þessum þvingunum, fáum fram sanngjarna niðurstöðu í þessu máli. Það er ekkert annað sem íslenska þjóðin á skilið og það er það sem hún fer fram á.