138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[11:05]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að taka neitt af utanríkisþjónustunni sem hún hefur gert vel í þessu máli og ég veit að menn þar leggja sig fram. Það sem ég var fyrst og fremst að vísa til var blaðamannafundurinn og fréttatilkynningin sem var gefin út strax eftir synjun forsetans. Mér fannst stjórnin glutra niður því tækifæri sem þar var gefið. En við skulum ekki eyða tímanum í að tala um það sem liðið er. Nú vil ég fara að horfa fram veginn.

Það er rétt sem hæstv. utanríkisráðherra segir, málstaður okkar nýtur vaxandi skilnings í útlöndum. Ég tel að það sé án vafa að hluta til starfskröftum utanríkisþjónustunnar að þakka. En við skulum ekki gleyma hinu að það er líka að sjálfsögðu vegna þess að fólk sér, m.a. ritstjóri Financial Times, hversu ósanngjarnar kröfurnar eru sem verið er að gera á okkur Íslendinga. Þær eru fráleitar. Þær eru algjörlega (Forseti hringir.) úr öllu samhengi við allt það sem aðrar þjóðir eru að taka á sig vegna bankahrunsins.