138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[11:08]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað vill ríkisstjórn …? [Hlátur í þingsalnum.] Mætti ég fá hljóð í salinn? Ég ætla ekki að nota mína mínútu í að bíða eftir hljóði. Hvað vill ríkisstjórnin sem segir í öðru orðinu: Við höfum engar lagalegar skuldbindingar í málinu en við ætlum að fallast á allar kröfur viðsemjenda okkar? Hvað er sú ríkisstjórn að meina?

Við skulum hafa eitt á hreinu, ég hef verið talsmaður þess að við ættum samtal við viðmælendur okkar í þessu máli, að við leituðum sátta í því. En takist ekki samningar, er þá ekki augljóst að bera eigi ágreininginn undir dómstóla? Er einhver mótsögn í þessu tvennu? Þvert á móti. Það sýnir viljann til að leita lausna, en takist engir samningar gerum við þá einföldu og sjálfsögðu kröfu að ágreiningurinn verði borinn undir dómstóla. Það er engin mótsögn í þessu. Vilji menn ekki láta reyna á neina samstöðu um að standa gegn þessum afarkostum er sjálfsagt og eðlilegt að fara með málið (Forseti hringir.) fyrir þjóðina, bera það undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem þjóðin mun senda skilaboðin sem ríkisstjórnin hefur ekki haft kraft í sér til að koma til skila. (Forseti hringir.)