138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[11:38]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir yfirvegaða ræðu og vil staldra við nokkur atriði í málflutningi hennar, í fyrsta lagi þetta: Sjálfstæðisflokkurinn var ekki í neinum þykjustuleik þegar hann bar hér upp tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu. Það var full alvara á bak við það. Við höfum eitt meginmarkmið og það er að hrinda þeim samningi sem ríkisstjórnin gerði og lögfesti ríkisábyrgð á fyrir í lok ársins. Það er okkar markmið.

Getum við náð breiðri pólitískri sátt hér á þinginu um nýjar forsendur eða þarf þjóðaratkvæðagreiðslu til að ná þessu markmiði? Það verður að koma í ljós. Mér finnst ekki mikill sáttatónn í talsmönnum ríkisstjórnarinnar og eftir situr spurningin: Hefur ríkisstjórnin yfir höfuð einhvern áhuga á að láta reyna á samstöðu? Ég verð ekki var við mikil svör. Það er eins og menn haldi að ég ætli að koma hingað upp í ræðustól á Alþingi og úttala mig um þann samning sem ég sé fyrir mér að geti mögulega leyst deiluna. Hvers konar pólitík eru menn að velta fyrir sér? (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Stjórnmál eru list þess mögulega og það er ekkert útilokað varðandi það hvernig við tökum á stöðunni.