138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[11:50]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem við ræðum hér, og er dagskrárefni þessa fundar, er tiltölulega skýrt. Það er frumvarp til laga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu til þess að skera úr um þau lög sem forseti Íslands synjaði staðfestingar. Hins vegar hafa stjórnarliðar einhvern veginn haft á því lag að þvæla þetta mál og gera það mjög ruglingslegt þannig að það er alls ekki ljóst hvernig þeir líta á þetta mál eða um hvað eigi að kjósa. Umræðan sem hefur farið fram af hálfu stjórnarliða er sú að þetta sé ekki þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta tiltekna frumvarp eða þessa tilteknu lagasetningu heldur sé þetta þjóðaratkvæðagreiðsla um stuðning við ríkisstjórn eða stuðning við forseta Íslands. Síðan er líka fimbulfambað um það að staða ríkisstjórnarinnar eftir ákvörðun forseta Íslands sé orðin þannig að þetta sé nánast orðin eins konar starfsstjórn. Nú vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún líti ekki þannig á að sú þjóðaratkvæðagreiðsla sem nú fari fram sé eingöngu þjóðaratkvæðagreiðsla um þessa illræmdu lagasetningu eða hvort hún telji að skoða eigi þetta í öðru ljósi. Ég vil líka spyrja hæstv. forsætisráðherra að því hver sé hin raunverulega staða ríkisstjórnarinnar. Er hún eins konar starfsstjórn fram yfir þjóðaratkvæði sem á að fara fram í lok febrúar?